Birt hefur verið svar fjármálaráðherra við fyrirspurnum Loga Einarssonar, alþm. um eignir og tekjur landsmanna árið 2017. Þar kemur fram að efsta 0,1% landsmanna, sem eru 229 fjölskyldur hafi átt í lok árs 2017 eignir að fjárhæð 237 milljörðum króna. Gerir það að jafnaði 1.034 milljónir króna á hverja þessara 229 fjölskyldna.
Eignamesta 1% landsmanna eru 2.290 fjölskyldur og áttu þær samtals 719 milljarða króna. Er meðaltalið þar 314 milljónir króna á fjölskyldu. Fimm prósent fjölskyldnanna, 11.450 fjölskyldur, áttu samtals 1.648 milljarða króna. Hver fjölskylda átti að jafnaði 144 milljónir króna.
Þessi 5% fjölskyldnanna átti 42% alls eigin fjár landsmanna. Ríkasta 1% átti 18% eignanna og ríkasta 0,1% átti samtals 6%.
Þegar litið er á tekjurnar höfðu tekjuhæstu 5% samtals 22,6% teknanna árið 2017 eða um 400 milljarða króna. Það gerir að meðaltali um 35 milljónir króna í árstekjur. Tekjuhæstu 0,1% fjölskyldnanna höfðu samtals nærri 64 milljarða króna í árstekjur eða að jafnaði 279 milljónir króna hver þessara 229 fjölskyldna.