Stjórn Krabbameinsfélags Íslands lýsir yfir andstöðu við frumvarp um afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og að heimila áfengisauglýsingar. Stjórnin hvetur alþingismenn til þess að fella frumvarpið. Í ályktun frá stjórninni segir að með frumvarpinu sé verið að leggja til að aðgengi að áfengi verði stóraukið með tilheyrandi fjölskylduvanda, samfélagslegum kostnaði, heilsufarsvanda og álagi á heilbrigðiskerfið.
Fjöldi fagfólks á sviði heilbrigðis og félagsvísinda auk félagasamtaka hafi fært góð rök fyrir því aukið aðgengi að áfengi sé ekki af því góða. „Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur um áratugaskeið lagt til við aðildarþjóðir sínar að unnið verði markvisst að því að draga úr heildarneyslu áfengis. Það er fjarri lagi að hægt sé að taka ákvarðanir sem varða áfengi á þeirri forsendu að þar sé um að ræða venjulega neysluvöru,“ segir í ályktuninni.
Tengsl eru á milli áfengisneyslu og krabbamenins og félagið bendir á að vitað sé að áfengi auki líkur á krabbameini í munnholi, koki, barka, vélinda lifur, ristli, endaþarmi og brjóstum. Einnig séu vísbendingar um að það auki líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli auk fleiri tegunda krabbameins. Áætlað er að áfengi sé orsök um 4% dauðsfalla af völdum krabbameins eða um 25 manns hér á landi árlega.
Þar segir einnig: „Með samþykkt frumvarpsins væri gengið þvert á ýmsar áætlanir til bættrar heilsu sem stjórnvöld hafa samþykkt á undanförnum árum og mikilvægum stoðum kippt undan árangursríkri forvarnastefnu í áfengismálum sem almenn samstaða hefur verið um hjá þjóðinni. Stefnu sem meðal annars hefur skilað því að hér á landi er heildarneysla áfengis með því lægsta sem þekkist í okkar heimshluta og árangur í forvörnum meðal ungmenna á heimsmælikvarða. Okkur ber skylda til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr neyslunni en ekki auka hana. Þannig stöndum við vörð um heilsu fólksins í landinu.“
smari@bb.is