Fullveldisfernur komnar í búðir

Katrín Jakobsdóttir með fullveldisfernur.

Nú í nóvemberbyrjun leit dagsins ljós afrakstur samstarfs afmælisnefndar fullveldis Íslands og Mjólkursamsölunnar þegar sérstakar fullveldisfernur kom í búðir. Fernurnar prýða sex mismunandi textar og myndskreytingar um markverða atburði sem áttu sér stað á árinu 1918. Fróðleiksmolarnir um fullveldisárið verða á mjólkurfernunum út afmælisárið.

Saga mjólkuriðnaðar á Íslandi er samofin fullveldisöldinni. Fyrsti vísirinn að mjólkuriðnaði voru rjómabúin svokölluðu sem áttu stutt blómaskeið í upphafi 20. aldar en lögðust flest niður eftir 1918. Með aukinni þéttbýlismyndun á öðrum og þriðja áratugi 20. aldar skapaðist markaður fyrir mjólk og mjólkurvörur og árið 1927 voru sett lög á Alþingi sem heimiluðu ríkissjóði að greiða fjórðung af stofnkostnaði mjólkurbúa. Í kjölfarið voru stofnuð mjólkursamlög víða um land og urðu þau flest 19 talsins. Á fullveldisöldinni hefur þróun mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaðar tekið miklum framförum í kjölfar tækninýjunga og nú er hlutfall mjólkur frá kúabúum sem tekið hafa mjaltaþjóna í notkun eitt það hæsta í heiminum.

Samstarf afmælisnefndar við Mjólkursamsöluna er liður í stærra verkefni sem afmælisnefnd var falið samkvæmt þingsályktun og miðar að því að vekja áhuga ungs fólks á fullveldisárinu og þeim merka áfanga sem náðist með sambandslögunum árið 1918. Á vefsíðu afmælisnefndar fullveldi1918.is er nú að finna námsefni og ýmsan fróðleik um fullveldisárið fyrir öll skólastig og er samstarf afmælisnefndar og Mjólkursamsölunnar liður í að færa fræðslu um fullveldisárið inn á sem flest heimili í landinu.

Mjólkursamsalan hefur allt frá árinu 1994 beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins og var hugmynd afmælisnefndar um samstarf því vel tekið af fyrirtækinu. Mjólkurfernur koma við sögu á borðum flestra landsmanna á degi hverjum og eru þær því sterkur og skemmtilegur miðill til að koma jákvæðum skilaboðum og fróðleik á framfæri. Er það von allra sem að verkefninu koma að fernurnar veki áhuga og athygli fólks á öllum aldri.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA