Á þingi SÍBS sem var að ljúka er ályktað um væntanlega heilbrigðisstefnu sem unnið er að. Þar segir
„Í drögum að heilbrigðisstefnu sem kynnt var í dag er lögð áhersla á að lýðheilsustarf verði hluti af allri þjónustu og þá sérstaklega heilsugæslunnar. Í drögum skortir skýra stefnu í forvörnum þar sem lögð er til grundvallar innleiðing á forvörnum í allar stefnur hins opinbera, samanber Heilsueflandi verkefni landlæknis þar sem sveitarfélög, fræðslu- og menntastofnanir eru lykilþátttakendur. Jafnframt vantar inn áherslur stjórnvalda varðandi tæki sem stjórnvöld hafa til að hafa áhrif á heilsuhegðun svo sem sykurgjald.“
Ennfremur :
Hlutverk hins opinbera í forvarnastarfi kristallast í að innleiða „heilsu í allar stefnur“ (e. health in all policies). Mikilvægt er að inn í slíka vinnu rati aðilar utan hins eiginlega heilbrigðiskerfis, svo sem menntakerfið, framhaldsfræðslan, sveitarfélögin, vinnustaðir og frjáls félagasamtök. Samhliða „heilsu í allar stefnur“ er æskilegt að komið verði á formlegu ferli um lýðheilsumat (e. health impact assessment) sem taki bæði til aðgerða opinberra aðila og einkaaðila sem líkleg eru til að hafa áhrif á lýðheilsu. Hér má minna á mikilvægi þess að leggja gjald á heilsuspillandi vörur, til dæmis sykurgjald, líkt og þegar hefur verið gert með áfengisgjald og tóbaksgjald, auk fyrirbyggjandi skimunar á áhættuþáttum langvinnra og lífsstílstengdra sjúkdóma. Heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að unnið verði að því að leggja fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu á yfirstandandi þingi. Skorað er á heilbrigðisráðherra að sem flest af ofangreindu verði að finna í þeirri stefnu.