Sunddeild UMFB í Bolungarvík skellti sér á tvö sundmót fyrir sunnan síðustu helgar og var árangur vestfirsku keppendanna að vonum góður. Fyrra sundmótið var Extramót SH sem haldið var í Ásvallalaug. Það var haldið helgina 20-21. Október og um 250 sundmenn frá 16 félögum komu saman þessa helgi.
Frá UMFB fóru 7 ungar dömur á þetta móti en það miðast við 12 ára og eldri. Þær voru að synda ásamt sterkasta sundfólkinu á landinu. Stelpurnar bættu sig allar og frá 1 og upp í 28 sekúndur sem er frábær árangur. Þær röðuðust um það bil í miðjuna á heildarfjöldanum í úrslitum.
Eftir sundmót fá krakkarnir oftast að njóta sín og í þetta skiptið fóru stúlkurnar í trampólingarðinn Rush áður en haldið var heim.
Seinna sundmótið var í Keflavík, Speedomót ÍRB, sem var haldið laugardaginn 27. Október. UMFB átti 18 keppendur á því móti en þau voru á aldrinum 7 til 11 ára. Þar var mikið um bætingar frá 2 upp í 20 sek. „Þar eigum við krakka sem eru í fremstu röð í sínum árgangi,“ sögðu sundþjálfararnir í samtali við BB.
„Við erum ótrúlega stolt af börnunum og þau stóðu sig svo sannarlega með prýði.
Framundan hjá okkur er svo lítið sundmót um miðjan mánuð í sundlauginni í Bolungarvík,“ sagði Guðlaug Rós Hólmsteinsdóttir, formaður sunddeildar UMFB.
„Sunddeildin er alltaf að stækka og bætast við iðkendur frá sveitarfélögunum í kring,“ sagði Guðlaug enn fremur. „Við erum til dæmis með krakka frá Ísafirði og Súðavík. Við erum einnig heppin með þjálfara en þær eru tvær, Hrund Karlsdóttir og Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir. Við miðum æfingarnar okkar við að krakkarnir geti tekið frístundarrútuna frá Ísafirði en sunddeild UMFB er fyrir krakka á grunnskóla- og menntaskóla aldri og eru allir velkomnir að æfa hjá okkur óháð búsetu,“ sagði Guðlaug að lokum.
Sæbjörg
sfg@bb.is