Milljarður rís á Ísafirði

Milljarður hefur risið á Ísafirði síðustu ár

Í hádeginu á morgun fer fram árlega dansbyltingin Milljarður rís og verður þá dansað í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Það er UN Women sem stendur fyrir vitundarátakinu þar sem fólk um allan heim kemur saman í eina klukkustund til að dansa fyrir réttlæti og þá með táknrænum hætti taka afstöðu gegn ofbeldi. Hér á landi verður að þessu sinni dansað á 10 stöðum og alls staðar á milli 12 og 13 og er það með þessum samtakamætti sem heimsbyggðin lætur til sín taka er segir í fréttatilkynningu frá UN Women á Íslandi og hvetja þau vinnustaði, skóla og vinahópa til að mæta og dansa fyrir réttlátum heimi. Þar segir jafnframt: Ofbeldi gegn konum er vandamál um allan heim – tökum afstöðu gegn ofbeldinu, mætum og dönsum!

Í ár verður með dansinum minning Birnu Brjánsdóttur heiðruð. UN Women á Íslandi segja að í kjölfar andláts Birnu hafi konur hér á landi í auknum mæli stigið fram og lýst þeim ótta og óöryggi sem þær finna fyrir á götum úti og hvernig þær axla ábyrgð á mögulegu ofbeldi með því að forðast augnsamband, velja ákveðnar götur fram yfir aðrar, halda á lykli milli fingra sinna í annarri hendi og símanum í hinni með 112 á hraðvali er þær ferðast milli staða að kvöld- og næturlagi. Ofbeldi eða ótti við að verða fyrir því er hluti af daglegu lífi kvenna víða um heim. Ofbeldið á sér stað hvenær sem er dagsins, á heimilum, á úti á götum, í almenningssamgöngum, á vinnustöðum og í kringum skóla svo dæmi séu nefnd.

UN Women vinnur að því að gera borgir öruggari fyrir konur og stúlkur víða um heim meðal annars vinna samtökin víða í samstarfi við borgaryfirvöld að einföldum og ódýrum aðgerðum sem miða að því að uppræta og draga úr ofbeldi gegn konum og stúlkum á almenningssvæðum. UN Women á Íslandi hvetur alla til að taka þátt í að gera borgir öruggari fyrir konur og stelpur með því að senda sms-ið Konur í 1900 (1000 kr.)

Dansbylting Milljarður rís verður sem áður segir í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þann 17. febrúar á milli klukkan 12 og 13. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Gísli Halldór Halldórsson setur byltinguna og þá mun DJ Annska sjá dönsurum fyrir dansfóðri úr hátölurunum. Boðið verður upp á léttar veitingar meðal annars frá mjólkurvinnslunni Örnu og Kristal frá Ölgerðinni.

annska@bb.is

DEILA