Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og stjórnandi hjá Google, heldur fyrsta erindið í nýrri fundaröð Háskóla Íslands, „Nýsköpun – hagnýtum hugvitið“, föstudaginn 2. nóvember kl. 12-13 í Hátíðasal Aðalbyggingar. Hér er hægt að lesa meira um fundaröðina og erindinu verður jafnframt streymt á þessari slóð. Hér má svo lesa um fyrirlestur Guðmundar.
Guðmundur fjallar um framtíð Íslands og mikilvægi nýsköpunar fyrir atvinnulíf og samfélag. Hann ræðir m.a. hvernig háskólar sá fræjum fyrir atvinnulífið með grunnrannsóknum. Nýlega var Guðmundur Hafsteinsson skipaður formaður í stýrihóp um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Hann hefur leitt starf við þróun margra af helstu tækninýjungum hjá Google.
Í nýju fundaröðinni, „Nýsköpun – hagnýtum hugvitið“, verður sjónum beint að mikilvægi nýsköpunar en hún er undirstaða framfara og treystir samkeppnisstöðu Íslendinga til langframa. Í röðinni verður fjallað um ferðalag hugmynda yfir í fullmótuð fyrirtæki eða afurðir og hvernig íslenskt samfélag og stjórnvöld geta betur stutt við nýsköpunarstarf.
Sæbjörg
sfg@bb.is