Sjöhundruðasti fundur Brynju núna í nóvember

Þær Sigga og Munda voru ánægðar með veisluna hjá Kvenfélaginu. Mynd: Kristján Einarsson.

Kvenfélagið Brynja á Flateyri hélt upp á 100 ára afmæli sitt í Félagsheimilinu á Flateyri þann 27. október síðastliðinn. Það var mikið um dýrðir og dásemdar kræsingar, jafnvel þó Kvenfélagskonur hefðu aldrei þessu vant ekki bakað sjálfar. Kvenfélagið Brynja stóð fyrir því að Félagsheimilið yrði byggt á sínum tíma og var því vel við hæfi að veislan væri haldin þar. Yfir 100 manns lögðu leið sína í samkomuhúsið þennan dag til að fagna með konunum og Soffía Ingimarsdóttir segir í samtali við BB að þetta hafi verið mjög skemmtileg stund.

„Kvenfélagið var eitt af þeim félögum sem stóðu fyrir byggingu Félagsheimilisins á sínum tíma. Það var á annað hundrað manns sem komu á laugardaginn og það var rosalega gaman. Við brugðum svolítið út af vananum núna og bökuðum ekki heldur létum Bakarann baka fyrir okkur,“ segir Soffía kímin. „Fengum alveg ofboðslega fallega skreyttar kökur og góðar en við gerðum smáréttina,“ bætir hún við.

„Við bara ákváðum það að láta baka fyrir okkur núna því við bökum svo mikið fyrir fjáraflanir okkar. Það er Sólarkaffið og Sjómannadagskaffið og Flateyringar standa alveg ofboðslega vel við bakið á okkur. Þegar við erum með þessar kaffisölur. Og eins Ísfirðingar sem koma og sérstaklega á sjómannadaginn, þá kemur þó nokkuð mikið af Ísfirðingum og svo allir brottfluttu Flateyringarnir sem hafa komið á sjómannadaginn undanfarin ár. Þannig að við erum rosalega þakklátar fyrir þennan stuðning. En við getum þá líka gefið til baka. Eins og til dæmis kirkjunni okkar en það var til dæmis eiginlega fyrir atbeina Kvenfélagsins sem kirkjan var byggð árið 1926. Tíu árum seinna var hún svo vígð og þá gaf Kvenfélagið gjöf og við höfum alltaf staðið við hlið hennar og gefið þegar þörf er á. Eins leikskólanum og við höfum alltaf gefið þeim nemanda í 10. Bekk sem stendur sig best í íslensku hvert ár bókagjöf. Þannig að við gefum þessa peninga sem Flateyringar styðja okkur með áfram til samfélagsins,“ segir Soffía.

Það eru 20 konur í Kvenfélaginu Brynju núna og tvær nýjar voru nýlega teknar inn. „Og ég tel það nú bara nokkuð gott miðað við 150 manna samfélag,“ segir Soffía að lokum og það er greinilega mikill kraftur í Kvenfélagskonum á Flateyri og félagsskapurinn góður. Konurnar funda sjö sinnum á ári og núna í nóvember slá þær í sjöhundruðasta fundinn frá upphafi. Geri aðrir betur.

Meðfylgjandi myndir tók Kristján Einarsson.

 
Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA