Strandveiðar auka á sátt

Strandveiðibátur landar í Bolungarvík.

Í síðustu viku funduðu fulltrúar Landssambands smábátaeigenda (LS) með atvinnuveganefnd Alþingis. Á fund­in­um var farið yfir helstu áherslu­mál fé­lags­ins sem viðkoma breyt­ing­um á lög­um um stjórn fisk­veiða og reglu­gerðum. Auk þess var lands­sam­bandið kynnt, enda marg­ir nefnd­ar­manna á sínu fyrsta ári í þing­mennsku.

Mesta áhersl­an var lögð á strand- og mak­ríl­veiðar. Einnig voru rædd­ar kröf­ur LS um að auka heild­arafla í þorski, um línuíviln­un, byggðakvóta, veiðigjald og samþykkt­ir aðal­fund­ar, svo eitt­hvað sé nefnt.

Hvað viðkem­ur strand­veiðum var lögð áhersla á mik­il­vægi þeirra í að auka sátt um stjórn­kerfi fisk­veiða og fyr­ir hinar dreifðu byggðir, leið fyr­ir nýliða til að hefja út­gerð. All­ir þess­ir þætt­ir mundu efl­ast ef krafa LS um „fern­una“ svokölluðu, en það er heiti yfir sam­felld­ar strand­veiðar í fjóra mánuði (maí – ág­úst), fjóra daga í viku) næði fram að ganga.  Þó að afli yk­ist yrði það ekki í beinu sam­hengi við fjölg­un daga, þar sem sókn og viðhorf myndi gjör­breyt­ast að mati LS. Að lok­um var lögð áhersla á að strand­veiðar hefðu ekki notið þeirr­ar aukn­ing­ar sem orðið hefði á þorskkvót­an­um frá ár­inu 2011.

Varðandi mak­ríl­inn var ít­rekuð áhersla fé­lags­ins um að aflétta öll­um veiðitak­mörk­un­um á færa­veiðar þar til hlut­deild smá­báta í heild­arafla nær 16%.

smari@bb.is

DEILA