Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur látið vinna hverja skýrsluna á fætur annarri um væntanlega vegagerð.
Reykhólahreppur samþykkti Teigsskógsleiðina þann 30. maí 2008 og 24.ágúst 2009 er aðalskipulagið staðfest af Umhverfisráðherra. Síðan þá hefur það verið opinberlega leiðin sem hreppurinn vill fara.Eftir því sem næst verður komist var enginn andstaða við málið í sveitarstjórninni og það samþykkt af öllum sveitarstjórnarmönnum.
Í október 2009 fellir Hæstiréttur úr gildi úrskurð Umhverfisráðherra frá 2007 sem heimilaði B leiðina, sem þá hét og lá um Teigsskóg. Varð þá að byrja upp á nýtt með umhverfismati frá grunni. Reykhólahreppur lagði allan tímann áherslu á að nýr vegur lægi um láglendi og breytti ekki samþykktu aðalskipulagi.
- Matsskýrsla: Þ-H leið – vilji heimamanna
Þann 29. mars 2017 birtir Vegagerðin matsskýrslu sína. Þar voru bornir saman fimm valkostir. vegagerðin lagði þar til breytta B leið, sem nú heitir Þ-H leið. Síðan voru tveir kostir með jarðgöngum í gegnum Hjallaháls og tveir kostir þar sem Þorskafjörður var þveraður, annar utarlega og hét A1 og hinn innar og þverað frá Hallsteinsnesi, svokölluð I leið. Vegagerðin skýrir tillögu sína m.a. með þessum orðum:
„Rök Vegagerðarinnar fyrir því að velja leið Þ-H eru meðal annars þau að sú veglína er í samræmi við gildandi skipulag sem lýsir vilja sveitarfélagsins og heimamanna til vegalagningar á þessu svæði.“
Aðrar ástæður, sem nefndar eru fyrir vali Vegagerðarinnar, eru þær að Þ-H leið er ódýrust, að hægt er að byrja á henni nú þegar og þveranirnar A1 leiðin og I leiðin hafa neikvæð áhrif á umhverfið.
Skipulagsstofnun kom nú á óvart og sagði að gera þyrfti breytingar á aðalskipulagi hreppsins þar sem Þ-H leiðin væri of mikið breyttt frá B leiðinni sem skipulagði gerði ráð fyrir. Um miðjan september sama ár samþykkir sveitarstjórn Reykhólahrepps að gera umræddar breytingar og senda þær í almenna kynningu. Í nóvember eftir að umsagnafrestur er liðinn er unnin upp vinnslutillaga með tveimur valkostur sem ákveðið er að kynna.
- RHA skýrslan
Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri vann að beiðni Reykhólahrepps skýrslu um samanburð á samfélagsáhrifum leiðanna D2 og Þ-H. Ástæðan var sú að hreppurinn þurfti að velja hvor þessara leiða yrði sett inn á aðalskipulag hreppsins segir í skýrslunni. Sú skýrsla var fullbúin í desember 2017. Niðustaðan var sú að Þ-H leiðin kom betur út í mati á umhverfisáhrifum meðal annars varðandi öryggisatriði. Ef D2 yrði valin yrði óhjákvæmilega töf á framkvæmdum sem kæmi sér illa fyrir alla aðila. Þá er mikill kostnaðarmunur á þessum tveimur leiðum, 6,9 milljarðar króna Þ-H leiðin en jarðgangaleiðin 10,9 milljarða króna miðað við verðlag þá.
Ákvörðun sveitarstjórnar: Þ-H leiðin valin
Að lokum velur sveitarstjórnin Þ-H leiðina á fundi sínum 8. mars með langri greinargerð. Það eru 4 sveitarstjórnarmenn með og einn á móti. Í bókuninni stendur m.a. þetta:
„Leið A1 er dýrasti framkvæmdakosturinn sem var til skoðunar hjá Vegagerðinni. Með hliðsjón af þeim takmörkuðu fjármunum sem eru til skiptanna og þeirrar brýnu þarfar í samgönguverkefnum sem eru um allt land, telur sveitarstjórn miklar líkur á því að enn frekari tafir verði á framkvæmdum ef valinn er kostur A1 eða aðrir kostir. Það er orðið verulega aðkallandi að ráðast í samgöngubætur“ 17. apríl er svo samþykkt að auglýsa aðalskipulagsbreytingarnar og senda þær til Skipulagsstofnunar.
Þar með málið afgreitt eða hvað? Nei aldeilis ekki. Sá eini sem var á móti var ekki af baki dottinn heldur fékk samþykkt að „fengin verði óháð verkfræðistofa, helst erlend, til að meta og fara yfir valkosti í vegagerð í Gufudalssveit“ .
- Multiconsult
Þarna voru komnir Hagkauspbræðurnir inn í spilið og lögðu fram 5 milljónir króna til þess að borgar fyrir úttektina. Það var svo norska fyrirtækið Multiconsult sem var fengið til verksins eins og kunnugt er. Skýrsla Multiconcult var kynnt í júní 2018. Norðmennirnir lögðu svo ekkert nýtt til heldur vöktu upp gamlar tillögu um þverun utarlega í Þorskafirðinum auk þess að breyta jarðgangaleiðinni á þann hátt að hafa göngin ofar í Hjallahálsinum. Sveitarstjórn samþykkti í júlí að fresta auglýsingu aðalskipulagstillögunnar meðan kannaður væri sá möguleiki sem fram kæmi í skýrslu Multiconsult.
- Vegagerðin
Sveitarstjórn Reykhólahrepps var ekki búin að fá nóg af skýrslum og bað nú vegagerðina um að gera skýrslu um skýrslu Multiconsult. Sú skýrsla var opinber gerð 16. október. Niðurstaðan kom ekki á óvart. Þ-H leiðin er áfram best, ódýrust og öruggust auk þess sem hægt er að byrja strax.
- Enn skýrsla
Eftir að skýrsla Vegagerðarinnar er komin fram með mjög afdráttarlausri niðurstöðu bregður svo við að oddviti sveitarstjórnar lýsir því yfir að sveitarstjórn muni ekki taka skýrsluna til umræðu fyrr en eftir tæpan mánuði. Að vísu hittist sveitarstjórnin auðvitað en það var óformlegur fundur og því engin fundargerð né engin ákvörðun tekin. Sveitarstjórinn Tryggvi Harðarson segir að ráðgast verði við sérfræðinga frá Alta, SVÓ og Multiconsult. Um skýrslu Vegagerðarinnar sé ekki tímabært að tjá sig fyrr en fyrir liggi formlegar athugasemdir og að sveitarstjórn hafi vegið þær og metið.
Það er í þessu þessara einkennilegu viðbragða forsvarsmanna Reykhólahrepps ástæða til að rifja upp að það var Reykhólahreppur sem óskaði eftir því að Vegagerðin gerði sína skýrslu í ljósi norsku skýrslunnar. Til hvers var verið að biðja um það álit ef forsvarsmennirnir keppast við að gera það tortryggilegt og telja sig þurfa að leita um víðan völl að grafa undan trúverðugleika sérfræðinga Vegagerðarinnar?
Það er þegar komnir 19 mánuðir frá því matsskýrslan kom fram. það eru liðnir 7 ½ mánuður frá því að sveitarstjórn Reykhólahrepps til ákvörðun í málinu. Enn eru leiknir tafaleikir og það er tímabært að pólitísk forysta hreppsins komi fram og geri hreint fyrir sínum dyrum. Þegar allt er á botninn hvolft er Þ-H leiðin leið heimamanna og hefur verið það frá 2008. Það liggja allar staðreyndir á borðinu og ekki eftir neinu að bíða. Vestfirðingar hafa þegar beðið mörgum árum of lengi eftir niðurstöðu og frekari bið er óforsvaranleg.
-k