Atvinnuleysi jókst í seinasta mánuði og voru að meðaltali 5.200 manns skráðir atvinnulausir í mánuðinum skv. nýbirtri skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn. Fjölgun atvinnulausra má að stærstum hluta rekja til uppsagna fiskverkafólks í sjómannaverkfallinu. Fjöldi atvinnulausra jafngildir 3% atvinnuleysi, sem hefur ekki verið hærra frá apríl 2015. Að meðaltali fjölgaði á atvinnuleysisskrá um 1.281 frá desembermánuði.
Greiðslustofa atvinnuleysisbóta greiddi ríflega einn milljarð í bætur og aðrar greiðslur vegna atvinnulausra í seinasta mánuði. Auk fiskvinnslufólks og sjómanna var nokkur fjölgun atvinnulausra úr byggingariðnaði, flutningastarfsemi, verslun og fleiri atvinnugreinum, sem er í takt við hefðbundna árstíðasveiflu.
smari@bb.is