Í dag kl. 17 opnar Cale Coduti sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Cale Coduti er amerískur málari og útskrifaðist frá Pennsylvania State University 2016 með BFA í teiknun og málun. Hann hefur tekið þátt í samsýningum og haldið einkasýningar í Bandaríkjunum frá 2014 og hlotið fjölda tilnefninga og viðurkenninga fyrir verk sín.
Á sýningunni í Úthverfu verða teikningar og málverk sem hann hefur unnið á meðan á dvöl hans hefur staðið í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði. Mörg verka hans tjá tilfinningar sem liggja djúpt og eru ekki auðveldar að túlka með orðum. Verkin eru fagurfræðilegar tilraunir, stundum fullar af gleði og stundum þrungnar meiningu sem erfitt að skilgreina.
Allir eru velkomnir á opnun sýningarinnar í dag og þiggja þar léttar veitingar. Sýningin stendur til laugardagsins 18. febrúar og er opin eftir hádegi virka daga og/eða eftir samkomulagi.
smari@bb.is