Nýsköpunarátak í Bolungavík

Bolungavík. Mynd: Benedikt Sigurðsson.

Bæjarráð samþykkti í gær  að fela bæjarstjóra að hefja undirbúning að nýsköpunarátaki í
Bolungarvík sem miðar að því að fjölga störfum og fjölga íbúum á vinnufærum aldri í
Bolungarvík.

Í bókun bæjarráðs segir:

Nýsköpun er drifkraftur framtíðarinnar og hann er forsenda þess að samfélög haldi áfram
að dafna, styrkjast og sækja fram.
Samkvæmt skýrslu Byggðastofnunnar um mannfjöldaþróun á Vestfjörðum og nýlegri
greiningu frá ráðgjafafyrirtækinu Analytica sem birt var á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga
í byrjun október sl., þá eru horfur til þess á Vestfjörðum, og þ.m.t. Bolungarvík, muni
vanta íbúa á vinnufærum aldri í framtíðinni. Skortur á vinnufæru fólki getur haft áhrif á
getu sveitarfélagsins til að reka sjálfbært samfélag til lengri tíma litið.

Bæjarráð leggur áherslu á að leitað verði eftir stuðningi og samstarfi við stoðgreinar á
Vestfjörðum og á landsvísu, s.b.r. Nýsköpunarmiðstöð, Vestfjarðastofu, Hvetjanda,
Byggðastofnun og þau ráðuneyti og stofnanir stjórnvalda sem hafa með málið að gera.
Þess utan verði leitað til fyrirtækja og annarra stofnanna á Vestfjörðum og í Bolungarvík
til að styðja við aukna nýsköpun með hið sameiginlega markmið í huga.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna aðgerðaáætlun sem lögð verður fyrir bæjarráð.

DEILA