Bæjarráð Bolungavíkur ræddi á fundi sínum í gær um stöðu línuívilnunar í því ljósi að allt bendir til þess að handbeitning fari mjög minnkandi. Það mun hafa áhrif í sjávarplássunum þar sem þá hverfur línuívilnunin og með henni störf. Vill bæjarráðið að reglum um línuívilnun verði breytt þannig að áfram verði stutt við störf í þessum byggðarlögum.
Ályktun bæjarráðs Bolungavíkur:
„Undanfarin ár og áratugi hefur línuívilnun staðið undir fjölda starfa í mörgum
sjávarútvegssveitarfélögum og hefur verið forsenda þess að útgerð á handbeitta línu hefur
yfir höfuð átt sér stað.
Breyttar forsendur og ytri aðstæður í umhverfi útgerða í krókaaflamarki hafa leitt til
fækkunar útgerða sem gera út á handbeitta línu og hefur bátum með beitningavélar
fjölgað undanfarin ár og njóta þannig ekki línuívilnunar.
Allt bendir til þess að handbeitning á línu fari verulega minnkandi á næstu árum og hverfi
jafnvel þegar fram líða stundir. Það liggur í augum uppi að án útgerðar á handbeitta línu
eða uppstokkunar í landi, þá mun línuívilnun falla niður dauð.
Það var skýr vilji stjórnvalda, allt frá því að línuívilnun var fyrst sett á árið 2003, að
ívilna þessu útgerðaformi til að stuðla að aukinni atvinnu í sjávarbyggðum. Þörfin fyrir
þessa ívilnun er enn fyrir hendi og það löng og bitur reynsla sjávarútvegssveitarfélaga að
þegar störfin hverfa, þá hverfur fólkið með.
Línuívilnun er hluti af svokölluðum 5,3% potti í heildaraflamarki sem ákveðið er fyrir
hvert fiskveiðiár og ætlað til „frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir“. Byggðarkvóti er t.a.m.
hluti af sama potti. Samkvæmt hugmyndum starfshóps sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra um endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta, sem skilaði
lokaskýrslu í júní 2017, koma fram tillögur um að byggðakvóta væri hægt að úthluta til
allt að 10 ára, m.a. til sjávarbyggða með beinum samningum. Slíkt getur líka átt við um
línuívilnun.
Bæjarráð Bolungarvíkur skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir breytingu á útlutun
línuívilnunar og tryggja að hún haldi áfram að styðja við störf í sjávarbyggðum.“