Þing ASÍ hófst í dag í reykjavík og stendur það fram til föstudags. Gylfi Arnbjörnsson, fráfarandi forseti ASÍ setti þingið og rifjaði hann upp hvernig ástandið var í þjóðfélaginu var þegar hann tók við sem forseti í október 2008, í upphafi hrunsins:
„En það voru ekki einungis heimili og efnahagur félaga okkar sem hrundi í október 2008 heldur hrundi að mörgu leiti íslenskt samfélag sem verið hafði í greipum frjálshyggjunnar um árabil.
Atvinnulífið stóð á brún hengiflugsins og þúsundir félagsmanna stóðu skyndilega ekki einasta frammi fyrir eigna tapi heldur einnig fordæmalausri kaupmáttarskerðingu, missi atvinnu og lífsviðurværis og í fullkominni óvissu um hvort þeir sjóðir og þær stofnanir vinnumarkaðarins og samfélagsins sem tryggja áttu velferð félagsmanna við áföll gætu valdið hlutverki sínu. Aldrei áður hafði atvinnuleysi vaxið eins hratt og þá og fall kaupmáttar var af stærðargráðu sem við höfðum ekki séð í langan tíma.“
Síðan sagði Gylfi um verkefnið sem hann og Alþýðusambandið stóð frammi fyrir:
„Þetta var sá kaleikur sem að mér var réttur sem forseta ykkar á þessum örlaga tímum haustið 2008 og ég ásamt miðstjórn og forystumönnum aðildarfélaganna stóðum frammi fyrir fordæmalausri stöðu sem krafðist fumlausra og samstilltra viðbragða.
Mér finnst því rétt nú á 10 ára afmæli hrunsins, þegar ég stíg til hliðar, að horfa aðeins yfir þetta tímabil og að við veltum í leiðinni fyrir okkur með hvaða hætti við sem samtök og brjóstvörn íslenskrar alþýðu brugðumst við.
Valkostirnir voru ekki margir og þeir voru allir erfiðir. Ríkissjóður var ekki bara tómur, heldur var hallareksturinn af óþekktu umfangi og ljóst að geta hans til að axla miklar byrðar var lítil sem engin. En það var eitt og aðeins eitt sem kom aldrei til greina og það var að leggja árar í bát og láta hrekjast undan fárviðrinu.“
Sagði Gylfi að þá þessum tíma hefði komið vel í ljós hve styrkur verkalýðshreyfingarinnar var mikill, meðal annars vegna sú einstæða staða á heimsvísu að um 90% launafólks á Íslandi er í stéttarfélagi.
Þá vék Gylfi Arnbjörnsson að gagnrýni á forystuna:
„Því hefur verið haldið fram að þetta afl hafi ekki verið notað árin eftir hrun. Ég er ekki sammála því mati, því með kjarasamningum og þríhliða samstarfi við stjórnvöld og atvinnurekendur náðum við að hrinda í framkvæmd mörgum samfélagsúrbótum sem erlendir kollegar okkar hafa öfundað okkar af.
Mig langar að nefna nokkur dæmi þó fjarri lagi sé um einhverja tæmandi talningu a ræða.
* Eftir hrun var bótatímabili í atvinnuleysi lengt úr 3 árum í 4 ár og framlög til menntunnar þeirra sem misstu vinnuna og virkra vinnumarkaðsúrræða aukin verulega frá því sem áður var. Þetta var fyrst og fremst okkar verk með samkomulagi við atvinnurekendur og öflugum stuðningi stjórnvalda.
* Hvergi í heiminum tókst betur til við að verja viðkvæmustu hluta heilbrigðis- og velferðarkerfisins í endurreisn ríkisfjármála, m.a. vegna þess að veigamiklir þættir tilfærslu- og afkomutryggingarkerfinu eru í kjarasamningum en ekki hjá ríkissjóði.
* Vorið 2008 höfðum við samið um stofnun VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs undir yfirskriftinni ,,við skiljum engan eftir‘‘ og okkur tókst að tryggja farsæla uppbyggingu kerfis raunhæfra úrræða fyrir þá sem lenda í veikindum og alvarlegum slysum í gegnum allt hrunið.
* Verulegar úrbætur náðust á lagalegri stöðu skuldugra heimila bæði hvað varðar óhóflegan innheimtukostnað lögmanna en sú lagabreyting fæddist á skrifstofum ASÍ en ekki síður með sérstökum lög um afskriftir óraunhæfra skulda í gegnum 110% leiðina og greiðsluaðlögun, mál sem ASÍ setti á dagsrá löngu fyrir hrun.
* Samkomulagi um endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins með 30% stofnkostnaðarstyrkjum og stofnun Bjargs íbúðafélags þannig að aldrei aftur þurfi láglaunafólk að steypa sér í ofurskuldir til þess að njóta húsnæðisöryggis sem er hluti af grundvallarmannréttindum.
* Við lögðum grunn að auknum hagvexti og fjölgun starfa og gerðum kjarasamninga sem bæði tryggðu að félagsmenn okkar næðu kaupmætti sínum til baka, og meira til, ásamt því að lyfta þeim tekjulægstu verulega. Það hefur svo sannarlega gengið eftir eins og alkunna er meðan félagar okkar austan hafs og vestan eru langt frá því að ná sömu stöðu fyrir launafólk í sínum heimaríkjum og líta til okkar og þeirra úrræða sem við gripum til.
* Okkur hefur tekist á ná fram þeirri áratugagömlu kröfu Alþýðusambandsins að jafna ávinnslu lífeyrisréttinda á milli almenna- og opinbera markaðarins, aðgerð sem mun skila yngri félagsmönnum okkar sérstaklega, mun betri lífeyriskjörum en þeim sem við flest búum við.
* Við tvöfölduðum framlög atvinnurekenda í starfsmenntasjóði almenns launafólks og jukum framboð af nýjum námstækifærum fyrir þá sem litla menntun hafa.
* Við höfum náð samkomulagi við atvinnurekendur og stjórnvöld um verulegar breytingar á réttarstöðu erlendra starfsmanna með auknu aðhaldi að starfsmannaleigum og fyrirtækjum sem fá til sín útsenda starfsmenn. Eins og skýrt hefur komið fram á síðustu vikum er það verkalýðshreyfingin undir merkinu „Einn réttur – ekkert svindl“ sem hefur staðið vaktina í þessum efnum með öflugu og vel skipulögðu vinnustaðaeftirliti, eftirliti sem stjórnvöld höfðu mikið til vanrækt. Það hefur leitt til þess að stofnanir ríkisins og stjórnvöld eru að vakna til verka og hefði þó mátt vera fyrr. Enn eigum við þó langt í land í þessum efnum en vinnum hörðum höndum að úrbótum í samstarfi við atvinnurekendur og stjórnvöld.“