Á morgun klukkan 17 verður mjög áhugaverð ljósmyndasýning opnuð á göngum Edinborgarhússins. Sýningin nefnist Þjóðmyndir II og er unnin af hópi þátttakenda í ljósmyndanámskeiði sem haldið var á vegum Fjölsmiðjunnar, Vesturafls og Starfsendurhæfingar. Umsjónarmaður verkefnisins er Rana Campbell, en hún fluttist á Ísafjörð fyrir nokkrum árum frá Kanada, og stundaði meðal annars nám áður í Háskólasetri Vestfjarða.
„Ég var ráðin sem umsjónarmaður Fjölsmiðjunnar, sem er nýtt prógramm og hluti af Vesturafli,“ segir Rana þegar BB spyr hana hvernig standi á því að hún kemur að þessu verkefni. „Í Fjölsmiðjunni bjóðum við upp á verkefni fyrir fólk sem á í erfiðleikum á vinnumarkaði og þar fram eftir götunum. Síðasta vetur fékk ég styrk til að útfæra verkefni sem kallast Þjóðmyndir en mig hefur lengi langað að bjóða fólki upp á það tækifæri að tjá sig á skapandi hátt. Í okkar hópi eru margir sem hafa áhuga á ljósmyndun svo ég fékk styrk til að ráða Gústa og hann var með einn hóp í grunnnámskeið í ljósmyndun.“
Rana var ekki einungis að bjóða fólki upp á ljósmyndanámskeiði heldur var verkefnið einnig hluti af rannsókn hennar, þar sem hún vildi kanna áhrif námskeiðs af þessu tagi á hóp sem á við tímabundin eða langvarandi vandamál og veikindi að stríða. Hún segir þó að tungumálaörðugleikar hafi staðið henni fyrir þrifum sem og akademísk hugsun. Þá er líka mjög mismunandi eftir menningu og samfélagi hvernig og hvort fólk kýs að tjá sig um tilfinningar sínar og hugsanir. „En þegar verkefnið hófst og námskeiðið byrjaði og við fórum að fara út og taka myndir þá gerðist eitthvað. Sem var afskaplega fallegt og einlægt. Eins og fyrir töfra. Þegar fólkið fór að tengjast og taka myndir. Það var sérstök og góð upplifun og við lærðum mjög mikið,“ segir Rana ánægð. „Þau lærðu mjög mikið um ljósmyndun og hvernig er hægt að nota hana til að tjá sig og ég lærði heilmikið líka, varðandi tungumálið og hvernig talað er um tilfinningar í mismunandi samfélögum.“
„Við vorum svo með sýningu á Hversdagssafninu um páskahelgina og hún var mjög vel sótt. Og þar kom fram einn hlutur sem mér finnst mjög mikilvægur. Ég heyrði konu eina á sýningunni segja að það væri svo gott að sjá hvað fólk væri eiginlega að gera í Vesturafli því hún vissi ekki mikið um þessi samtök. Eitt af markmiðum mínum með verkefninu Þjóðmyndir var einmitt að banka á veggi fordóma sem fólk hefur hugsanlega gagnvart geðheilsuvandamálum. Sumir úr hópnum okkar töluðu líka um þetta. Að þau vildu sýna eitthvað frá okkur og sýna að við erum ekki frábrugðin öðrum. Við getum gert allt sem aðrir geta,“ segir Rana Campell.
Þær Auður Matthíasdóttir og Auður Arna tóku þátt í Þjóðmyndaverkefninu og létu mjög vel af. „ Þetta byrjar þannig að þetta verkefni er á vegum Starfsendurhæfingar Vesturafls og Rana setur verkefnið saman og kallar eftir einstaklingum sem vilja taka þátt. Og við Auður erum svo blessunarlegar að fá að taka þátt í þessu. Námskeiðið snérist um að við erum send út að taka myndir af því efni sem að við höfum áhuga á. Og þurfum náttúrulega bæði að læra á myndavélina og síðan að fá innsýn í það sem kennarinn vill að við komum fram með og okkar áhugamál koma inn í það val. Í framhaldinu fáum við að velja 2 myndir af 1000-1200 myndum sem við erum kannski búin að taka og þessar 2 myndir fara á sýninguna sem opnar á morgun,“ segir Auður Matthíasdóttir. Hún bætti við að valið hefði verið mjög erfitt og hún hefði verið komin með fjölda manns til að hjálpa sér að velja úr.
„Það var mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni,“ samsinnir Auður Arna. „Ég hafði aldrei tekið myndir á svona myndavél áður og vissi ekki neitt og skildi ekki neitt og svo opnuðust gáttir og maður fékk meiri innsýn og þetta var bara rosalega gaman,“ segir hún kát og að hún myndi helst vilja hafa framhaldsnámskeið, svo skemmtilegt var þetta.
Hópurinn er örlítið kvíðinn fyrir opnunardeginum sem er eðlilegt þegar fæstir þeirra hafa sýnt ljósmyndir áður. Þær Auður og Auður segja þó að hluti af lærdómnum hafi verið að gagnrýna og taka gagnrýni á myndirnar og hópurinn hafi verið svo vel samstilltur að það hafi gengið ákaflega vel.
Við hvetjum sem flesta að samgleðjast Þjóðmyndahópnum milli klukkan 17 og 20 í Edinborgarhúsinu á morgun en sýningin verður uppi um óákveðinn tíma.
Sæbjörg
sfg@bb.is