Fyrir helgi birti Vestfjarðastofa „Áfangastaðaáætlun Vestfjarða.“ Markaðsstofa Vestfjarða hefur unnið að skýrslunni undanfarin misseri og hefur skýrslan nú formlega farið fyrir sveitafélögin á svæðinu.
Áfangastaðaáætlun Vestfjarða er heildstæð áætlun sem hefur ferðaþjónustu sem meginpunkt. Markmið hennar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu sem skilar sem mestu til samfélaga, um leið og mögulegum neikvæðum áhrifum er haldið í lágmarki. Í áætluninni er horft á ferðaþjónustu út frá víðu sjónarhorni og tekið tillit til margra ólíkra aðila sem eiga hagsmuna að gæta. Áætlunin tekur tillit til gesta, íbúa, fyrirtækja og umhverfis og reynir að skapa jafnvægi.
Unnin var framtíðarsýn og meginmarkmið út frá niðurstöðum opinna funda sem haldnir voru víðsvegar á Vestfjörðum. Út frá því var unnin aðgerðaáætlun þar sem haft er að leiðarljósi að Vestfirðir verði sjálfbær gæðaáfangastaður og arðbær ferðaþjónusta verði rekin í sátt við umhverfi og samfélag. Hringvegur 2 og kerfi göngu- hjóla- og hlaupaleiða gefi gestum kost á að njóta sérkenna svæðisins, ægifagurrar náttúru og heilstæðra þorpsmynda árið um kring.
Í samantekt sem unnin var úr skýrslunni er einnig tiltekið hvernig ferðaþjónusta á best við Vestfirði, svo sem náttúruferðamennska, sjálfbær ferðamennska, upplifunarferðamennska, menningar- og arfleifðar og svo matarferðamennska. Samkvæmt greiningum er sjálfstæði landkönnuðurinn sá markhópur sem hentar best á Vestfjörðum, það er ferðafólk sem dvelur lengur og borgar fyrir gæði en tilheyrir ekki massa ferðaþjónustu.
Í samantektinni er einnig sagt frá því að áður hafi Þjóðverjar verið með flestar gestakomur en árið 2017 hafi Norður-Ameríka átt vinningin. Sama ár komu 95.163 farþegar á Vestfirði með skemmtiferðaskipum og þar af voru tæp 30 þúsund frá Þýskalandi en um 23 þúsund frá Bandaríkjunum. Tæp 35 þúsund manns fóru um Ísafjarðarflugvöll á síðasta ári, 3600 um Bíldudalsflugvöll og 177 um Gjögur.
Fjölsóttustu áningarstaðir ferðamanna eru Látrabjarg, Dynjandi og Rauðisandur en vegir að þessum stöðum eru ekki með heilsársþjónustu. Þegar taldir eru upp helstu styrk- og veikleikar áfangastaðarins Vestfjarða þá er náttúrufegurðin, fámenni, óspillt náttúra og núið nefnt sem styrkleikar. Veikleikarnir felast í því að það skortir betra skipulag, betri grunngerð svo sem salernisþjónustu og samgöngur í allri sinni heildarmynd.
Í áætluninni er sett fram aðgerðaáætlun þar sem lögð er áhersla á að ljúka hringvegi 2 um Vestfirði og gera samgöngur öruggar. Jafnframt er ætlunin að efla heilsársþjónustu og þróa og vekja athygli á ferðum sem sérstaklega eru hugsaðar til að lengja ferðamannatímabilið. Þá er vonast til að hægt sé að byggja upp ferðaþjónustu í bæjarkjörnunum, móta stefnu þar innan og þróa afþreyingarmöguleika. Einnig er vilji til þess að setja ramma utan um og stýra aðgengi skemmtiferðaskipa fyrir árið 2020.
Ýmislegt er enn óunnið og möguleikarnir miklir. Áhugasamir geta kynnt sér áfangastaðaáætlunina í heild sinni hérna.
Sæbjörg
sfg@bb.is