Vegir lagfærðir í Seyðisfirði og Hestfirði

Það er ávallt gleðiefni þegar vegir eru lagfærðir.

Súðavíkurhreppur hefur gefið framkvæmdaleyfi fyrir vegagerð á Djúpvegi 61-34, eða á milli Leitis og Eyrar. Framkvæmdaleyfið tók gildi 12. september 2018 og fellur úr gildi 1. Nóvember 2019. Í þessum framkvæmdum felst vinna við vegbætur og vegagerð í Hestfirði og Seyðisfirði, alls um 7 km leið. Framkvæmdirnar munu hefjast í Hestfirði þar sem veglínan við Nóná mun færast örlítið upp fyrir núverandi veg vegna lagfæringa. Í botni Seyðisfjarðar mun vegurinn einnig færast ofar vegna lagfæringa.

Frá botni Seyðisfjarðar til norðurs verður núverandi vegur aftur á móti endurbyggður en víkur niður fyrir veginn eftir nokkurn spotta. Þar mun verða gert nýtt vegsvæði meðfram sjónum og að Grjótdalsá. Frá ánni og að útboðsenda verður núverandi vegur aftur endurbyggður. Í lagfæringunum felst að ræsi verða endurnýjuð og bundið slitlag lagt á veginn. Þá verður áningarstaður í botni Seyðisfjarðar endurbyggður og lagður bundnu slitlagi.
Vegurinn er í samræmi við Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 1999-2018 og er ekki háður mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b. Fyrir liggur leyfi Minjastofnunar Íslands til að raska fornminjum. Vegsvæðið um Eiðið liggur að hluta innan svæðis nr. 313 í náttúruminjaskrá og að mati Umhverfisstofnunar eru áhrif framkvæmdarinnar á Lambadalsfjall óveruleg.

Í Hestfirði mun vegurinn liggja í jaðri birkikjarrs á 700 metra kafla og mun raska 1,9 hektara svæði. Fram kemur að framkvæmdaraðili hafi haft samband við Skógræktina um mælingar og mögulegar mótvægisaðgerðir.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA