Draumarnir urðu til í Abbey Road

Abbey Road og draumarnir.
“Ég hef lengi stefnt að því að taka upp í Abbey Road en það varð aldrei að því og ég hef ekki tekið upp nýja plötu í mörg ár,” segir Rúnar Þór. En þegar hann hafi síðan ákveðið að taka upp sína síðustu plötu hafi ekki komið annað til greina en fara í hljóðver Bítlanna í Lundúnum.
“Bæði vegna þess að þetta er frábært hljóðver en ekki síður vegna þess að þarna tóku Bítlarnir upp flest sín snilldarverk,” segir Rúnar Þór. Tónlist þeirra hafi valdið straumhvörfum í lífi hans eins og flestra af hans kynslóð. Eftir að hafa hlustað á Bítlna hafi hann vitað að hann vildi leggja tónlistina fyrir sig.
Tónlistarferill Rúnars hófst um eða upp úr fermingu og stendur enn. Hann hefur sent frá sér hátt á annan tug hljómplatna og diska og spilað á þúsundum tónleika um allt land. Nýja platan heitir Draumar og var tekin upp hljóðveri 2 í Abbey Road í ágúst, þar sem Bítlarnir störfuðu mest og flöldinn allur af heimsfrægum tónlistarmönnum hefur tekið upp í gegnum áratugina.
“Ég flaug út með fjögurra manna hljómsveit með mér. Þórir Úlfarsson á píanó og Hammond en hann hefur verið upptökumaður minn og útsetjari í mörg ár, þótt í þetta skiptið hafi ég fengið þaulvanan upptökumann frá Abbey Road til liðs við okkur. Friðrik Sturluson spilar á bassa, Pétur Valgarð Pétursson á gítar og Magnús Magnússon á trommur. Allt frábærir fagmenn segir Rúnar Þór.
Átta ný lög eftir Rúnar Þór eru á Draumum auk eins lags eftir Þóri og annars eftir dóttur Rúnars Öldu Karen. Textarnir koma síðan úr ýmsum áttum. Draumar koma út skömmu fyrir útgáfutónleika Rúnars Þórs og hljómsveitarinnar í Bæjarbíó í Hafnarfirði hinn 29. nóvember, “Ein af ástæðunum fyrir því að þetta verður mín síðasta plata er að plötuútgáfa borgar sig ekki lengur fyrir tónlistarmenn. Diskar og plötur eru nánast hættir að sejast og útgefendur gefa lítið sem ekkert út og ef þeir gera það gefur það tónlistarmanninum ekkert í aðra hönd,” segir Rúnar Þór.
Þess vegna gefur Rúnar Þór diskinn út í takmörkuðu upplagi og ef vel gengur ætlar hann kannski að gefa út lítið upplag af plötunni á Vínil. “Þetta er dýr útgerð. Kostnaður við upptökurnar, ferðalög og framleiðslu hleypur á milljónum og það þarf að hafa fyrir því að fá upp í kostnaðinn. Þess vegna er þetta varla leggjandi á mann,” segir Rúnar Þór.

Hann lofar hins vegar hressum útgáfutónleikum og aldrei að vita nema hljómsveitin komi með honum vestur á Ísafjörð til að endurtaka leikinn.

Rúnar Þór Pétursson

DEILA