Öryrkjabandalagið: leggst gegn starfsgetumati

Í frétt frá Öryrkjabandalaginu segir að Öryrkjabandalag Íslands hafi árum saman háð harða baráttu fyrir afnámi þessara skerðinga. „Fjárlög eftir fjárlög hefur verið verið þrýst á stjórnvöld að afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna, sem ekki aðeins heldur fólki í fátæktargildru, heldur hefur slæm áhrif á allt líf fólks sem býr yfir getu til og vill sækja út á vinnumarkaðinn, þrátt fyrir skerta starfsorku.“

Stjórn Öryrkjabandalagsins skoraði um leið á Alþingi að bregðast strax við og setja sérstaka framfærsluuppbót inn í bótaflokkinn tekjutryggingu og leiðrétta þá mismunun sem örorkulífeyrisþegar hafa orðið fyrir frá 1. janúar 2017. „Það yrði mikilvægt skref stjórnvalda til að sýna almenningi í landinu að þau vilji vinna að því að útrýma fátækt í samfélaginu. Slík viðleitni yrði jákvæð fyrir lífskjarabaráttu fjölda fólks og til þess fallið að leggja grunn að trausti,“ sagði í áskorun stjórnar ÖBÍ.

Guðmundur Ingi Kristinsson, alþm. tók málið upp á Alþingi á dögunum og spurði Ásmund Daða Einarsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, í umræðunni í þinginu, hvort hann myndi sjá til þess að krónu-á-móti-krónu skerðingin yrði afnumin um næstu áramót. Einnig hvort ráðherrann myndi sjá til þess að öryrkjar fái afturvirkar leiðréttingar á krónu á móti krónu skerðingu frá 1. janúar 2017.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, kom í pontu á eftir Guðmundi. Ráðherrann sagði í svörum sínum að til stæði að afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna. Það væri verið að bæta 4 milljörðum króna við í málaflokkinn og þeir yrðu notaðir til þess að draga úr skerðingum sem yrðu svo afnumdar að fullu með nýju „framfærslukerfi almannatrygginga fyrir fólk með skerta starfsgetu ásamt því að taka upp nýtt mat á starfsgetu sem ætlað er að leysa af hólmi núverandi örorkumatskerfi. Ég vonast til þess að hugmyndir í þessa veruna geti verið kynntar á næstunni“ sagði ráðherrann.

Öryrkjabandalagið hefur lagst gegn hugmyndum um starfsgetumat.

 

 

DEILA