Guðjón Brjánsson: Öll rök komin fram. Þ-H leiðin best

Guðjón Brjánsson, alþm.

 

Guðjón Brjánsson,alþm. var inntur eftir afstöðu sinni til skýrslu Vegagerðarinnar og því hvert framhaldið ætti að vera. Svör hans voru þessi:

„Samantekt Vegagerðarinnar og þessi frumathugun er alveg skýr og nú verðum við að bretta upp ermar.  Heimamenn verða sömuleiðis að leggjast á árarnar með okkur og við að tala einum og sterkum róm.

 

Það sem mér sýnist á fljótlegri yfirferð og það sem hefur líka komið fram í umræðunni er að IKEA leiðin eða A3 leiðin er ekki árennileg eins og Vegagerðin hafði raunar skoðað áður, hún er lengri og umferðaröryggi á þeirri leið er ekki talið standast samanburð við Þ-H valkostinn. Að auki verður þetta umtalsvert dýrari kostur, þvert á það sem áður hafði verið gefið til kynna.  Umhverfisáhrifin eru eftir sem áður talsverð og sjálfsagt engin spurning um nauðsyn umhverfismats.

 

Við getum ekki dvalið við þetta lengur.  Þetta er til vansa fyrir stjórnsýsluna og stjórnvöld öll hvernig þetta málefni hefur fengið að dragast ár út og inn.  Það eru öll rök komin fram í málinu, hvernig sem því er velt og snúið.  Við stöndum frammi fyrir skýrum kosti sem er ÞH leiðin að mínu áliti.  Allir raunhæfir valkostir hafa umhverfisáhrif og ég er sannfærður um að t.d. ÞH leiðin mun hafa verulega jákvæð samfélagsleg áhrif á svæðinu þegar verkinu er lokið og sömuleiðis að umhverfisáhrifin verði bara jákvæð í framtíðinni.  Enn fleiri munu fá tækifæri til þess að njóta með þægilegu móti þessa einstaklega fallega svæðis.

 

Ég spyr hvort áfram eigi að draga lappirnar, kasta umræðunni á dreif. Það tefur þá verkið líklega enn um nokkur ár. En það gerist sjálfsagt ekkert fyrr en Reykhólahreppur gengur frá erindi sínu til Skipulagsstofnunar eins og búið var að samþykkja í sveitarstjórn fyrr á árinu. Það gerist vonandi hratt. Í samgönguáætlun er búið að setja til hliðar fé í verkefnið á næsta ári og nú er mikið undir heimamönnum komið að taka afgerandi skref.

 

Ég held ég geti fullyrt að allir þingmenn kjördæmisins muni standa þétt að baki heimamönnum í þessu stóra verkefni sem við verðum að fá í gang.“

DEILA