Byggðakvótinn auglýstur fyrir 2018/19

Frá Flateyrarhöfn. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum frá sveitarstjjórnum um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019. Bæjar-/sveitarstjórnir eru umsóknaraðilar fyrir byggðarlögin innan sveitarstjórnarumdæmanna og annast þær öll samskipti við ráðuneytið, sem nauðsynleg eru vegna úthlutunarinnar. Umsóknarfrestur um byggðakvóta fiskveiðiársins 2018/2019 er til 1. nóvember 2018. Umsóknir sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.

Til úthlutunar eru 6.168 þúsund tonn í þorskígildum talið, þar af eru 5.400 tonn af þorski.

Til greina við úthlutun byggðakvóta koma:

  1. Minni byggðarlög (viðmiðun er 2.000 íbúar þann 1. janúar 2018), sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og sem háð eru veiðum og vinnslu á botnfiski. Skal sveitarstjórn gera ráðuneytinu ítarlega grein fyrir vanda byggðarlagsins sem talið er að rekja megi til samdráttar í sjávarútvegi á síðustu árum og fyrir þýðingu veiða og vinnslu botnfisks fyrir það byggðarlag.
  2. Byggðarlög sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í þeim. Sveitarstjórnir skulu leggja fram gögn, sem sýna fram á að í tilteknu byggðarlagi hafi óvænt skerðing heildaraflaheimilda fiskiskipa sem gerð eru þaðan út og landað hafa þar afla, hafi haft veruleg neikvæð áhrif á atvinnuástand í viðkomandi byggðarlagi.

Að fengnum umsóknum sveitarfélaga tekur ráðuneytið ákvörðun um hversu mikill byggðakvóti kemur í hlut einstakra byggðarlaga og tilkynnir bæjar-/sveitarstjórnum niðurstöðuna.

Á síðasta fiskveiðiári fengu 14 byggðakjarnar á Vestfjörðum samtals 2.422 tonn af byggðakvóta. Áætlað verðmæti hans er 2,5 – 3 milljarðar króna miðað við meðalverð á leigukvóta á þessum tíma.  Mest kom í hlut Flateyrar 388 tonn, 370 tonn til Tálknafjarðar og 331 tonn til Þingeyrar. Minnst kom í hlut Bolungavíkur og Brjánslækjar, 15 tonn til hvorrar verstöðvar.

 

DEILA