Ég heiti Eva Lind og ég bý á Bíldudal. Við hjónin vorum svo heppin að fá tækifæri til að flytja á Bíldudal í vor. Síðustu ár höfum við séð hversu eljusamt og harðduglegt fólk býr á Vestfjörðum, sem hefur tekist svo ótrúlega vel að byggja upp samfélagið. Við hjónin höfum horft aðdáunaraugum á og hefur vestfirska hjartað okkar slegið í takt með þeim. Nú starfar Jón í tæknideild hjá Arnarlaxi og ég starfa á Gistihúsinu við Höfnina, ásamt því að vera að læra líftækni í fjarnámi við Háskólann á Akureyri. Hér viljum við búa og tryggja börnunum okkar framtíðar heimili. Það eru gríðarleg forréttindi og frelsi fyrir þau að alast hér upp. Ef allt fer á versta veg mun ekki einungis Jón missa vinnuna, heldur mun ég missa mína vinnu þar sem fjöldi manns nýtir sér gistingu allt árið um kring, tengt þeim fyrirtækjum sem eru á Bíldudal. Staðan er því miður enn þannig á Vestfjörðum að ferðamannastraumurinn er einungis um hásumarið og því myndi gistiheimilið þar sem ég starfa þurfa að loka yfir vetrartímann.