Útilokað að byggja laxeldi eingöngu upp á landi

Einar K. Guðfinnsson.

Eldisframleiðsla á laxi í heiminum er um 2,5 milljónir tonna. Það svarar til um 17 milljarða máltíða. Hlutur landeldisins er um 0,1 prósent, eins og fram hefur komið m.a. í grein eftir Helga Thorarensen prófessor við Háskólann á Hólum. Þetta sýnir í hnotskurn hversu fráleitt það er að unnt sé að flytja allt það laxeldi upp á land sem nú fer nánast að öllu leyti fram í sjó. Þó er þessu haldið fram af fullri alvöru, að ætla má, í opinberri umræðu.

Fáein hundruð tonn

Rétt er það að ýmis dæmi má nefna um áform um frekara landeldi. Það er hins vegar alveg jafn ljóst að þó öll hin ítrustu áform gangi eftir, sem þó má telja ólíklegt, mun það ekki breyta heildarmyndinni. Laxeldisframleiðslan verður í fyrirsjáanlegri framtíð að langmestu leyti í sjó en ekki á landi. Landeldisframleiðslan sem stundum er vísað til sem sérstakrar fyrirmyndar fyrir okkur Íslendinga, svo sem í Kanada, Póllandi og Sviss, hleypur á fáeinum hundruðum tonna á ári í hverjum stað. Það gefur augaleið að eldi af þeirri stærðargráðu stendur ekki undir fjárfestingu og rekstrarkostnaði sem fylgir nútíma fiskeldi.

Kostnaðurinn 50% meiri

Vitaskuld á landeldi á laxi sem og öðrum tegundum fullan rétt á sér og gerir ekkert annað en að auka fjölbreytni í þeirri mikilvægu starfsemi sem fiskeldið er. Því ber að fagna að menn vilji stunda fiskeldi á landi til viðbótar við þá starfsemi sem fer fram í sjókvíum og verður auðvitað ráðandi um ókomin ár.

Nýlega kom út skýrsla nokkurra virtra vísindastofnana í Noregi sem ætlað er að varpa ljósi á stöðu og möguleika landeldisins í samanburði við sjókvíaeldið. Þar getur margt fróðlegt að líta. Meðal annars það að framleiðslukostnaðurinn í landeldinu þar í landi væri nær 50 prósent hærri en í hefðbundnu eldi í sjókvíum.

Mikil andstaða við landeldi í Bandaríkjunum

Því var slegið upp í fjölmiðlum að mikil áform væru nú í Bandaríkjunum um landeldi og vísað til þess að það væri til marks um breyttar áherslur í heiminum í fiskeldismálum. Í þessu sambandi er athyglisvert að fylgjast með harðvítugri umræðu sem á sér stað t.a.m. í Maine-fylki þar sem slík áform hafa verið kynnt og þar sem gagnrýnin beinist mjög að umhverfisþáttum, svo sem landrými, vatnsnotkun, úrgangi og fleiri þáttum. Því fer þess vegna víðs fjarri að úti í hinum stóra heimi sé eintóm ánægja með þessa þróun og eftirtektarvert er að að sumu leyti er beitt sama málflutningi og gert er í gagnrýninni á fiskeldi hér á landi.

Landeldi nærri mörkuðum – fjarri Íslandi

Þau áform sem helst eru núna til umræðu varðandi landeldi eru á svæðum sem liggja nærri helstu mörkuðum, svo sem í Bandaríkjunum. Þannig horfa fjárfestarnir á að fjárhagslegt óhagræði af landeldi í samanburði við sjókvíaeldi megi að nokkru vega upp með nálægð við markaðina. Þegar af þeirri ástæðu gefur það augaleið að landeldi hér á landi gæti aldrei staðist þessum keppinautum snúning og svo sem ekki heldur í Noregi ef út í það er farið, nema þá ef til vill í litlum mæli hlutfallslega. Hugmyndir um landeldi á laxi á svæðum hér á landi þar sem nú er stundað sjókvíaeldi, á Austfjörðum og Vestfjörðum, eru því gjörsamlega óraunhæfar.

Hvar á að virkja?

Fiskeldi á landi í stórum stíl kallar á mikla orku. Það er því ljóst að ef menn ætla að stunda landeldi á laxi svo um munar kallar það á virkjanir til viðbótar því sem fyrirhuguð stóraukin orkuþörf, m.a. vegna orkuskipta, hefur í för með sér. Ætla menn að um það gæti orðið almenn sátt í samfélaginu? – Við vitum öll svarið við því.

Vatnsnotkun, úrgangur, landnýting og dýpra kolefnisfótspor

Landeldi hefur einnig í för með sér mikla vatnsnotkun sem ekki er endilega alls staðar auðvelt að verða við, jafnvel hér á landi, þó það komi kannski á óvart. Endurnýtingarkerfi á hinn bóginn sem unnt væri að nota til að draga úr vatnsnotkun krefst viðbótarorku sem í dag er ekki til staðar. Þá er ljóst að úrgangsmál frá landeldi sem fram fer í stórum stíl er alls ekki einfalt úrlausnarefni. Ofan á þetta allt saman bætist síðan að kolefnisfótspor slíkrar starfsemi er mun dýpra en í sjókvíaeldi, sem er kannski ekki beinlínis það æskilegasta þegar við heyrum bókstaflega neyðaróp um alla heimsbyggðina um að draga úr slíku. Loks er að nefna að landeldi af nægjanlegri stærðargráðu útheimtir gríðarleg landsvæði nærri þéttbýli.

„Útilokað að byggja laxeldi eingöngu upp á landi“

Á Íslandi hefur verið stundað laxeldi á landi í takmörkuðum mæli um árabil og verið til mikillar fyrirmyndar. Hér er því til staðar reynsla og samanburður við aðra kosti. Það eru þess vegna hæg heimatökin að kalla eftir áliti þeirra sem reynsluna hafa. Það vill svo vel til að slíkt hefur verið gert og niðurstaðan er einföld og skýr: „Ef þetta er allt tekið saman má segja að útilokað sé að byggja laxeldi eingöngu upp á landi,“ segja þeir sem tala af langri eigin reynslu.

 

Einar K. Guðfinnsson

stjórnarformaður Landssambands fiskeldissstöðva

DEILA