Bolungarvík: bæjarstjórn: ólíðandi að skilja fólk eftir í óvissu

Bæjarstjórn Bolungarvíkur.

Bæjarstjórn Bolungarvíkur gerði eftirfarandi samþykkt um fiskeldi á fundi sínum í gærkvöldi. Allir 7 bæjarfulltrúarnir studdu ályktunina:

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar styður uppbyggingu fiskeldis á Íslandi í sátt við umhverfið. Það er óásættanlegt að rekstrargrundvelli fyrirtækja á Vestfjörðum, sem og annarsstaðar á Íslandi, sé kippt undan þeim eins og staðan er nú í íslensku fiskeldi. Vestfirðingar þekkja það alltof vel að framfaramál í fjórðungnum séu stöðvuð af óljósum, tæknilegum ástæðum.

Það er ólíðandi að íbúar í Vesturbyggð og Tálknafirði séu skildir eftir í mikilli óvissu og nauðsynlegt að þetta fólk fái afdráttarlausan stuðning stjórnvalda. Nú er málið komið á þann stað að aðgerða er þörf. Það er krafa okkar að tíminn sé vel nýttur til að horfa til framtíðar og til að skapa umgjörð sem gerir fiskeldisfyrirtækjum kleift að vaxa og byggjast upp.

Bæjarstjórn styður fyllilega að gætt sé varúðar við uppbyggingu fiskeldis. Ekki hefur verið farið frammá annað en að uppbyggingin verði í sátt við náttúru og að uppfylltum skilyrðum.

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að skapa umgjörð um fiskeldi á Íslandi sem gerir því kleift að vaxa til framtíðar án sífelldra áfalla, vandamála og uppákoma eins og samfélagið hefur orðið vitni að undanfarna daga og vikur. Fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein sem hefur alla burði til að vera einn af hornsteinum í vestfirsku og íslensku atvinnulífi til framtíðar.

DEILA