Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish staðfestir í samtali við bb.is að sótt verði um starfs- og rekstrarleyfi í dag bæði til Umhverfisráðherra og Sjálvarútvegsráðherra.
„Umhverfisráðherra hefur heimild í lögum til þess að veita þessi leyfi til bráðabirgða og með lögum í gærkvöldi veitti Alþingi sjávarútvegsráðherra sambærilega heimild“ segir Sigurður.
„Við munum kæra úrskurð úrskurðarnefndarinnar til dómstóla það verður næsta skref. Úrskurðarnefndin þurfti ekki að fella leyfin úr gildi. Hún getur beitt vægari úrræðum, til dæmis leiðbeindandi tilmæli eða mildari úrskurðum en nefndin beitti. Flestir þeirra sem vð ráðfærðum okkur við töldu að nefndin myndi samþykkja að fresta réttaráhrifum leyfissviptingarinnar og það er komið á daginn að nefndinn hafði ekkert samráð við þær stofnanir sem í hlut áttu, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun.“
Sigurður Pétursson sagði að fyrirtækið myndi ekki deila við dómarann heldur fara að vinna samkvæmt úrskurðinum og gera endurbætur á umhverfismatinu í samræmi við úrskurðinn. Hann taldi öruggt að fyrirtækinu dygði 10 mánaða bráðabirgðaleyfi til þess að ljúka því, en spurning væri með opinberu stofnanirnar, hvort þær þyrftu lengri tíma.