Hópur íbúa í Reykhólahreppi hefur tekið sig saman og skora á á alla íbúa hreppsins, að senda áskorun úr tölvum sínum til formanns samgöngunefndar Alþingis um vegamál í Reykhólahreppi. Áskorunin sem íbúar eru hvattir til að senda, fjallar um að lög verði sett nú þegar sem heimila Vegagerðinni að bjóða út og hefja framkvæmdir eftir Þ.H. leið á þjóðvegi 60, eða frá Kinnárstöðum að Kraká.
Í póstinum segir að oddviti Reykhólahrepps hafi nýverið fullyrt að meirihluti íbúa Reykhóla vildi fara það sem kallað er leið Pálmasona í póstinum. Það er nýjasta vegaleiðin sem upp hefur komið og liggur í gegnum Reykhóla og yfir Þorskafjörð. Oddviti hafi þarna ekki rétt fyrir sér segir í póstinum og hið sanna muni koma í ljós ef íbúar Reykhólahrepps sendi þessa áskorun til Alþingis. Pálmasona leiðin sem kölluð er eigi eftir að fara í umhverfismat og þá eigi eftir að breyta aðalskipulagi frá 8. mars síðastliðnum.