Fagnaðarefni úrskurðarnefndar

Halldór Jónsson.

Ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á dögunum um að fella úr gildi starfsleyfi laxeldisfyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum er að nokkru leyti fagnaðarefni. Hann færir ákveðna tilhneigingu stjórnsýslunnar sem átt hefur sér stað gagnvart landsbyggðinni á liðnum árum, einkum Vestfjörðum,  á endastöð. Tilhneigingu sem hefur varað hefur verið við um margra ára skeið við litlar undirtektir og viðbrögð löggjafans. Loksins hefur verið kveðinn upp úrskurður sem gekk rækilega fram af almenningi. Svo mjög að löggjafinn mun bregðast við. Hvort og þá hvernig og hversu hratt og örugglega það verður á eftir að koma í ljós.

Tilhneiging stjórnsýslunnar

Tilhneigingin sem hér um ræðir er sú að gerðar hafa verið meiri kröfur til framkvæmda í fámenninu en í fjölmenninu. Gengið harðar fram og lagabókstafurinn túlkaður bókstaflega. Um leið látið undan óbilgjörnum og um margt fráleitum hugmyndum,  sem settar hafa verið í búning samtaka,  sjaldnast fjölmennari en sem nemur einum eða tveimur mönnum. Flest hefur þetta verið gert undir nafni náttúruverndar. Náttúruverndar sem enginn í fjölmenninu vill ástunda heima hjá sér en landsbyggðin, oft Vestfirðir, eiga að fullnusta. Daglegt líf og hagsmunir íbúa hafa engu máli skipt.

Dæmin fjölmörgu

Dæmin eru fjölmörg og ærir auðvitað óstöðugan að fara að nefna þau enn einu sinni. Það skal samt gert. Sjálfsögð vegagerð um Teigsskóg hefur frestast um áratugi vegna lagaþrætu eiganda tveggja sumarskýla. Vegagerð sem þykir sjálfsögð á öðrum stöðum á landinu. Í þeim málarekstri hefur stjórnsýslan algjörlega brugðist og látið allt meðalhóf lönd og leið. Fellt úrskurði sem óhugsandi er að muni nokkurn tímann falla í fjölmenninu. Hámarkinu hingað til var þó náð þegar tveir auðjöfrar gátu í krafti fjármagns komið í veg fyrir eðlilega afgreiðslu skipulagsvaldsins í héraði.

Sjálfbærni í raforkuframleiðslu hefur þótt sjálfsagður réttur hvar sem er á landinu. Á Vestfjörðum er hins vegar ennþá stuðst við olíuframleidda raforku stóran hluta ársins. Virkjun, sem í áraraðir hefur verið í nýtingaflokki og farið í gegnum nálarauga fremstu umhverfissinna landsins, varð allt í einu bitbein þegar hún var því sem næst komin á framkvæmdastig. Reynt var að hafa áhrif á skipulagsvald í héraði bæði í krafti fjármagns og ólöglegra búferlaflutninga fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Áform í fiskeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum á grundvelli 14 ára gamallar vísindalegrar ákvörðunar urðu  skyndilega orustuvöllur fámenns hóps  veiðirétthafa sem stofnað hafa um þá herferð svokölluð umhverfissamtök. Málflutningur andstæðinga fiskeldis undir ströngu vísindalegu eftirliti virðist engum takmörkunum háður og í litlu samræmi við raunveruleikann. Þar er slegið fram fullyrðingum sem henta hverju sinni í trausti þess að almenningur átti sig ekki á staðreyndum máls hverju sinni. Þáttur Hafrannsóknarstofnunar í málinu er ámælisverður og gert það að verkum að áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi eru í fullkomnu uppnámi. Svokölluð stefnumótun milli eldisfyrirtækja og veiðirétthafa á síðasta ári, sem í raun fól í sér mismunun á milli eldissvæða og fyrirtækja, hefur sýnt sig að var mikið óhappaverk. Sú stefnumótun er auðvitað ekki pappírsins virði því veiðirétthafar hafa aldrei virt hana.

Mengandi matvælaframleiðsla

Ákvörðun úrskurðarnefndar á dögunum dugir ekki að skoða undir þröngu sjónarhorni. Að því gefnu að eitt skuli yfir alla ganga í úrskurðum nefndarinnar verður fróðlegt að sjá hvernig ganga mun hjá öðrum fyrirtækjum í matvælaframleiðslu í framtíðinni þegar kemur að skipulagsmálum. Öll matvælaframleiðsla er mengandi. Laxeldi í sjó er sú grein sem hvað minnst mengar. Við hvaða kosti þurfa mjólkurbændur og nautgripabændur að bera sína framleiðslu saman við þegar kemur að umhverfismati. Eigi náttúran að njóta vafans, eins og úrskurðarnefndin kallar nú eftir, er borðleggjandi að hætt verði mjólkur- og nautakjötsframleiðslu. Hvað þá kjúklinga- og svínarækt.

Ákvörðun úrskurðarnefndar á dögunum er nefnilega ekki einkamál laxeldisfyrirtækja. Hún snertir alla matvælaframleiðslu og að því leyti er hún fagnaðarefni.

Mannfyrirlitningin og rasisminn

Úrskurðurinn hefur kallað fram ótrúlega framkomu forystumanns veiðirétthafa og umhverfissamtaka gagnvart íbúum þeirra landssvæða er í hlut eiga. Fyrirlitning  gagnvart hagsmunum íbúa er algjör. Forystumaður þeirra grípur til ósanninda um starfsmannafjölda fyrirtækja og fjölda íbúa er í hlut eiga. Steininn tók þó úr þegar hann bar fyrir sig í sjónvarpsviðtali fullkomnum rasisma þegar hann lýsti því yfir að íbúarnir skiptu ekki máli því þeir væru flestir pólverjar. Þetta gerist á sama tíma og þjóðin á erfitt með að trúa sögum um framkomu við erlent verkafólk.

Úrskurðurinn er því eins og áður sagði að mörgu leyti fagnaðarefni. Hann hefur staðfest ójafna stöðu íbúa gagnvart stjórnsýslunni og því miður talsverða mannfyrirlitningu. Nú hlýtur botninum að vera náð.  Löggjafinn getur ekki annað en dregið gluggatjöldin þungu frá og hleypt hreinu lofti og birtunni inn.

Halldór Jónsson

 

 

 

 

 

 

DEILA