Það stefnir í óefni í rekstri Menntaskólans á Ísafirði en fjárframlög til skólans fara minnkandi samhliða færri nemendum. Frekari fækkun nemenda mun að óbreyttu leiða til fábreyttara námsframboðs og þá mun skólinn ekki geta innritað alla þá nemendur sem útskrifast úr grunnskólum á svæðinu, eins og honum ber þó að gera samkvæmt lögum. Þetta kemur fram í bréfi Jón Reynis Sigurvinssonar skólameistara til menntamálaráðuneytisins. Við blasir að nemendum skólans í dagskóla mun fækka nokkuð fram til 2020 og kemur þrennt til: Í fyrsta lagi vegna stöðugrar fækkunar íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Í öðru lagi vegna styttingar framhaldsskólans í þrjú ár. Þetta mun leiða til enn frekari fækkunar frá og með 2018 en þá munu þeir nemendur sem eru nú á 2. ári bóknáms útskrifast. Í þriðja lagi hafa nemendur eldri en 25 ekki verið innritaðir í bóknám frá vorönn 2015 nema pláss sé í hópum.
Þingmönnum kjördæmisins hefur verið gert kunnugt um stöðu og framtíðarhorfur skólans með bréfi skólameistara, Jónu Benediktsdóttur, formanns skólanefndar MÍ og Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Í bréfinu er lýst þungum áhyggjum af stöðu skólans og er óskað liðsinnis þingmanna til að sjá til þess að skólinn geti haldið stöðu sinni sem einn af burðarásum í samfélaginu á norðanverðum Vestfjörðum.
smari@bb.is