Búa til hlé fyrir stjórnsýsluna

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra sagði í samtali við bb.is nú kvöld að með frumvarpinu væri stefnt að því að búa til hlé fyrir stjórnsýsluna og kippa í liðinn þeim annmörkum sem úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál setti fram á umhverfismatið fyrir 17.500 tonna laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Ráðherran benti á að nefndin hefði ekki gert athugasemdir við veigamikil atriði í umhverfismatinu, svo sem áhættumat og burðarþol heldur einblínt á samanburð laxeldisins í sjó við aðra kosti, svo sem landeldi og eldi á geldum fiski.

Gangi frumvarpið eftir myndu ríkisstofnanirnar Skipulagsstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun og fiskeldisfyrirtækin láta vinna skýrslu um samanburðarkostina og leggja fram umhverfismatið með þeirri viðbót. Aðspurður kvaðst ráðherrann ekki gera ráð fyrir tímafreku kæruferli, fari svo að málið færi að nýju til úrskurðarnefndarinnar.

Kristján Þór Júlíusson áréttaði að ekki væri verið að fara á svig við úrskurð úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðinn stæði óraskaður. Hins vegar væri verið að skapa svigrúm til þess að mæta athugasemdum nefndarinnar. Nefndin hefði ekki hafnað laxeldi i sjó heldur segði skýrt að það vanti gögn.  Það væri óbætanlegur skaði ef fyrirtækin væru knúin til stöðvunar áður en gögnin hefðu verið lögð fram og lagt mat á þau.

 

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga var á fundi með stjórn félagsins þegar bb.is náði tali af honum í kvöld.  Finnbogi kvaðst meta frumvarpið þannig að þetta væri biðleikur til þess að afstýra því að fyrirtækjunum yrði lokað strax. Áfram stæði óvissa og óöryggi. „Grýlan vofir yfir áfram“ sagði Finnbogi Sveinbjörnsson og lagði áherslu á að félagið myndi fylgjast vandlega með framvindu málsins og að krafan á stjórnvöld væri sú að skapa öryggi fyrir atvinnugreinina, sem væri svo  mikilvæg á Vestfjörðum.

DEILA