Forsvarsmenn sveitarfélaganna Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps fóru af haustfundi Fjórðungssambands Vestfjarða á Ísafirði í gær og flugu suður til Reykjavíkur í þeirri von að fá fund með formönnum ríkisstjórnarflokkanna, þeim Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Markmið fundarins var að fara yfir þá alvarlegu stöðu sem uppi er vegna niðurfellingar starfs- og rekstrarleyfa fiskeldisfyrirtækja í sveitarfélögunum tveimur.
Seinni partinn í gær var fundað með formönnum stjórnarflokkana þar sem þeim var greint frá þeim alvarlegum áhrifum sem úrskurðirnir hafa á íbúa sveitarfélaganna og það óvissuástand sem nú er uppi. Í sveitarfélögunum tveimur búa 1.268 manns, og hafa fyrirtækin tvö 165 manns á launaskrá, auk fjölda verktaka og þjónustufyrirtækja sem þessar ákvarðanir snerta beint. Verði ekki brugðist strax við er ljóst að þetta mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni.
Á fundinum var greint frá því að stjórnvöld væru að vinna að tilteknum lausnum til að bregðast við því óvissuástandi sem íbúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps standa nú frammi fyrir. Forsvarsmenn sveitarfélaganna treysta því að stjórnvöld veiti fyrirtækjunum skjól þannig að þau geti haldið sinni starfsemi áfram á meðan leyst er úr þeirri stjórnsýslulegu flækju sem upp er komin.
Seint í gær sendu forsvarsmenn sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum, Rebekka Hilmarsdóttir og Bjarnveig Guðbrandsdóttir, út tilkynningu um fundinn. Samkvæmt því næst verður komist var ekki ljóst til hvaða aðgerða ríkisstjórnin mun grípa til en talið að það muni skýrast í dag, mánudag.
Þá hefur flogið fyrir að af hálfu þeirra sem kærðu leyfi laxeldisfyrirtækjanna muni á morgun verða farið fram á að starfsemi þeirra verði stöðvuð. Það hefur ekki fengist staðfest.