Segir LV reyna að afvegaleiða umræðuna

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Sea Farm, segir ályktun Landssambands veiðifélaga (LV) um fyrirætlanir fyrirtækisins um eldi í Ísafjarðardjúpi og rekstur stórs eiganda þess, Norway Royal Salmon (NRS), byggða á rangfærslum og misskilningi. LV sendi frá sér fréttatilkynningu í síðustu viku þar sem meðal annars er gagnrýnt að NRS stundi grænt eldi með ófrjóum laxi í Noregi, en ekki hérlendis.  Hann segir að ályktun LV megi skilja sem svo að meginstarfsemi NRS felist í eldi á ófrjóum laxi í Noregi. Það sé alrangt. „Vissulega er NRS leiðandi aðili á þessu sviði í Noregi. Hér er þó enn sem komið er aðeins um tilraunaverkefni að ræða sem NRS hefur metnað til að kanna til hlítar, einnig hér á landi í verkefni sem nú er í burðar­liðnum á vegum Arctic Sea Farm, NRS og fleiri aðila,“ segir Sigurður í fréttatilkynningu til fjölmiðla og bendir á að ófrjór lax nam einungis 1% ef heildarframleiðslu fyrirtækisins í fyrra og í norsku laxeldi nam framleiðslan á síðasta ári af ófrjóum laxi innan við 0,2 prósentum af heildinni.

„Að notkun geldstofna ryðji sér nú mjög til rúms í Noregi eins og fullyrt er í ályktun LV virðist því einungis ætlað að afvegaleiða umræðuna,“ segir Sigurður.

smari@bb.is

DEILA