Gautur Óli og Kári Eydal valdir í úrtökuhóp fyrir landslið U15

Gautur Óli og Kári Eydal stóðu sig feiknavel á Rey Cup. Mynd: Guðný Stefanía Stefánsdóttir.

Gautur Óli Gíslason og Kári Eydal, leikmenn 4. flokks Vestra, voru nú á dögunum valdir í úrtökuhóp KSÍ fyrir U-15 ára landsliðið. Úrtökuhóparnir eru samsettir af efnilegum leikmönnum sem vakið hafa athygli á vellinum og eru kallaðir saman til æfinga, yfirleitt á höfuðborgarsvæðinu þar sem þjálfari U-15 vegur og metur hvern og einn og velur síðan þá sem hann telur henta liðinu í lokahóp landsliðsins. Þeir kumpánar áttu gott sumar með félögum sínum í 4. flokki Vestra, þeir unnu ReyCup-mótið í Reykjavík eftir æsispennandi úrslitaleik gegn Molina frá Chile en vítaspyrnukeppni þurfti til að skera úr um sigurvegara. Þá komst flokkurinn í úrslitakeppni Íslandsmótsins sem nú er nýlokið. Ekki lauk þeirri keppni með titli en er svo sannarlega gott veganesti fyrir þessa stráka og sýnir okkur að við getum ýmislegt þó fámenn séum. Allt sem þarf er vinna og dugnaður og þá getum við keppt við þá bestu.

Gautur Óli og Kári eru lykilleikmenn í þessu liði, óþreytandi við æfingar og iðkun íþróttar sinnar og eru vel að því komnir að vera valdir í úrtakið að þessu sinni.
Við óskum drengjunum innilega til hamingju með þetta.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA