Hver vill hanna útsýnispall á Bolafjall?

Bolungavíkurkaupstaður auglýsir eftir þátttakendum í forval vegna fyrirhugaðrar hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun útsýnisstaðar á Bolafjalli fyrir ofan Bolungarvík.

Bolungavíkurkaupstaður auglýsir eftir þátttakendum í forval vegna fyrirhugaðrar hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun útsýnisstaðar á Bolafjalli fyrir ofan Bolungarvík.

Samkeppnin er haldin í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta og verkfræðistofunnar Verkís. Markmið samkeppninnar er að gera útsýnisstaðinn á Bolafjalli að eftirsóknaverðum ferðamannastað á Vestfjörðum.

Leitast er eftir að fá fram hugmyndir að hönnun og efnisnotkun útsýnispalls sem verður einstakur í sínum flokki hvað varðar fagurfræði og staðsetningu. Pallurinn skal falla vel að umhverfinu og hlutföll og stærðargráða hans skulu endurspegla það. Enn fremur er leitast eftir því að fá fram hugmyndir að skipulagi áfangastaðar sem mun nýtast við gerð deiliskipulags. Skipulagið mun stuðla að því að heimsókn á Bolafjall verði mikilfengleg og einstök upplifun í alla staði.

Svæðið er í 638 metra hæð yfir sjávarmáli og er um það bil 46 hektarar að flatarmáli. Innan skilgreinds öryggissvæðis er ratsjár- og fjarskiptastöð og þyrlupallur Landhelgisgæslunnar. Öryggissvæðið er undanskilið skipulagi og ekkert vatn eða rafmagn er á svæðinu.

Bolafjall er vegna snjóalaga og bleytu eingöngu fært fólksbílum og litlum rútum frá júní fram í nóvember. Þátttakendum er frjálst að breyta núverandi legu aðkomuvegar og bílastæða sem eru á keppnissvæðinu. Gert er ráð fyrir að tillaga innihaldi a.m.k. eftirfarandi:
Staðsetningu og hönnun útsýnisstaðar á skilgreindu svæði við eða út fyrir fjallsbrún
Bílastæði fyrir u.þ.b. 20 bíla
Stígakerfi að útsýnisstað með aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Tillögur að nýjum stígum innan samkeppnissvæðis
Aðkomuveg

Ekki er gert ráð fyrir salernis- og/eða þjónustuaðstöðu, landvörslu né annarri þjónustu við ferðamenn.

Nánari keppnislýsing og keppnisgögn verða afhent völdum teymum.

Valin verða þrjú teymi til þátttöku í samkeppninni og mun hvert þeirra fá greiddar kr. 750.000,- fyrir sínar tillögur. Greitt verður aukalega kr. 500.000,- fyrir verðlaunatillögu.

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að nýta allar tillögur, að hluta til eða í heild. Sveitarstjórn stefnir að því að klára áframhaldandi skipulagsvinnu og hönnun í samvinnu við vinningshafa. Áætluð skil í samkeppninni verða í desember. Hvatt er til þverfaglegs samstarfs og því verður talið jákvætt að teymi sé skipað fjölbreyttum hópi hönnuða.

Nánari upplýsingar má sjá hér.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA