Bjartsýnn á að íbúar Bolungarvíkur verði 1000

“Íbúum Bolungarvíkur hefur fjölgað á síðustu tveimur árum og ég er bjartsýnn á að svo verði áfram, þannig að íbúatalan fari upp í eittþúsund,” segir Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungarvík í þættinum Landsbyggðum á N4 sem frumsýndur verður á fimmtudagskvöld.

Um siðustu áramót voru íbúar Bolungarvíkur 945 og hefur þeim fjölgað á síðustu árum. Jón Páll segir að nokkrar ástæður séu fyrir fjölguninni.

“Staðan á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins gerir það að verkum að ungu fólki er ýtt út á land. Þegar fólk selur fasteignina sína á höfuðborgarsvæðinu og kaupir í staðinn úti á landi opnast í kjölfarið ýmsir möguleikar. Fólk sér ýmis tækifæri samhliða þessu og getur jafvel flutt með sér vinnuna í leiðinni. Það sem hamlar hins vegar vextinum í Bolungarvík er skortur á húsnæði. Íbúðir í Bolungarvík sem auglýstar eru til sölu seljast strax,” segir Jón Páll.
Eins og fyrr segir, verður viðtalið við bæjarstjórann í Bolungarvík sýnt á fimmtudagskvöld á N4. Þátturinn verður svo aðgengilegur hérna á bb.is daginn eftir.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA