Nú á dögum vilja allir hafa ærslabelg. Nema kannski nokkrir á Ísafirði sem þykir vera bevítans læti á slíkum tækjum. Enn aðrir eru lausnamiðaðir og hafa hug á að setja ærslabelgi í kirkjugarða. Mögulega finnast þeir þar fyrir en hvað sem því líður þá vilja Strandamenn fá ærslabelg á Hólmavík.
Ærslabelgir eru afskaplega vinsælir hjá börnum á öllum aldri og með ólíkindum hvað þau geta dundað þar lengi við hopp og leiki. Á Hamingjudögum á Hólmavík í sumar hófst söfnun fyrir ærslabelg og tekið var við frjálsum framlögum. Alls söfnuðust rúmar 53 þúsund krónur en hluti af fjáröfluninni var að áhugasamir gátu fengið að kasta rjómatertum í sveitarstjórnarfólk gegn þóknun. Heildarupphæðin í söfnuninni stóð í tæpum 110 þúsund krónum í byrjun september en fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geta enn lagt sitt af mörkum með því að leggja inn á bókina 1161-15-202018 og kennitölu 570806-0419 í Sparisjóði Strandamanna.
Sæbjörg
bb@bb.is