Á næstu dögum fá íbúar Bolungarvíkur send valgögn á lögheimili sitt í Bolungarvík vegna vals á verkefni til framkvæmdar í tengslum við betri Bolungarvík. Dagana 18.-25. september geta íbúar svo valið hvaða verkefni þeir vilja að ráðist verði í.
Viðmiðunardagur valskrár var 15. apríl 2018 og þeir íbúar 18 ára og eldri sem þá voru búsettir í Bolungarvík eru á valskrá. Hver íbúi má aðeins velja einu sinni og niðurstaða valsins er ráðgefandi fyrir stjórn bæjarins. Valið stendur um sex verkefni og getur hver íbúi aðeins valið eitt verkefni af þeim. Þriggja manna valnefnd metur og telur þau atkvæði sem berast. Á valskrá eru 723 einstaklingar, þar af 381 karl og 342 konur.
Verkefnin eru:
1. Grillskáli í Bernódusarlundi úr hleðslusteini og timbri með bárujárnsþaki. Stærð skálans væri um 20 m², kolagrillstæði og bekkir og borð. Tilvalið fyrir fjölskyldur og hópa til að hittast og eiga stund saman.
2. Heilsustígur allt að 4 km að lengd með 10 til 15 æfingastöðvum með mismunandi æfingum og heimagerðum tækjum að mestu. Tilvalið fyrir eflingu heilsunnar og náttúruunnendur.
3. Hjólabraut sem væri um 35 metra langur hringormur með inn- og útakstursrömpum. Veitir börnum mikla útrás og gæti hentað í nágrenni grunnskólans.
4. Klifurveggur á efri hæðinni í Íþróttahúsinu Árbæ. Tilvalið til að auka áhuga á fjallklifri og fjallamennsku. Frábær viðbót við þróttmikið íþróttalíf bæjarins.
5. Mósaík-tröppur þar sem íbúar búa til munstur og fagmenn vinna verkið. Gæti sett skemmtilegan svip á bæinn.
6. Útihreystitæki frá danska fyrirtækinu Norwell Outdoor Fitness sem býr til hágæða útihreystitæki. Góð viðbót við þá afþreyingu sem fyrir er í Bolungarvík.
Atkvæði og talning
Íbúar á valskrá fá send valgögn á lögheimili og velja eitt af sex verkefnum. Íbúi má ekki velja fleiri verkefni því þá ógildir hann valseðil sinn og aðeins má velja einu sinni.
Valseðill í auðkenndu eða merktu umslagi er ógildur. Auðkenndir eða merktir valseðlar eru ógildir. Íbúi ógildir valseðil sinn ef hann ritar annað á hann en val sitt.
Íbúi skilar valseðli í atkvæðakassa í Ráðhúsi Bolungarvíkur þar sem merkt er við á valskrá. Íbúi getur ekki skilað inn valseðli fyrir annan en sjálfan sig. Valnefnd metur gild atkvæði og telur heildarfjölda gildra og ógildra atkvæða.
Ef tvö efstu verkefni eru jöfn að atkvæðum skal valnefnd skera úr um valið verkefni með hlutkesti.
Betri Bolungarvík er samráðsverkefni íbúa og sveitarfélagsins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í bænum árið 2018.
Betri Bolungarvík er þáttur í því að auka aðkomu íbúa að virkni sveitarfélagsins og efla lýðræði í Bolungarvíkurkaupstað. Verkefni af þessum toga kallast þátttökufjárhagsáætlun. Þeir íbúafundir sem haldnir hafa verið í sveitarfélaginu eru t.d. annar þáttur í því að auka lýðræði í Bolungarvík.
Sæbjörg
bb@bb.is