Ísfirðingar og nærsveitungar hittust í Grunnskólanum á Ísafirði til að perla fyrir Kraft, sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra. Ein helsta fjáröflunarleið Krafts er að selja perluarmbönd með áletruninni: „Lífið er núna.“ Armböndin eru eingöngu framleidd af sjálfboðaliðum sem leggja félaginu lið með því að bjóða fram krafta sína. Og kraftarnir voru svo sannarlega lagðir fram á laugardaginn síðasta en yfir 300 manns lögðu leið sína í grunnskólann til þess að perla.
„Við hjá Krafti erum afar þakklát fyrir alla þá 300 sem komu og perluðu með okkur í Grunnskólanum á Ísafirði á laugardaginn var. Perluð voru 967 armbönd og fyrir það erum við mjög þakklát. Takk allir!“ Segir Kristín Ólafsdóttir, ein skipuleggjenda.
Það var góð samverustund sem margir foreldrar áttu með börnum sínum þennan laugardag eins og sést á meðfylgjandi myndum sem teknar voru af Kristínu Ólafsdóttur.
Sæbjörg
bb@bb.is