Ávarp til Alþingis frá Þingeyrarakademíunni: „Til hvers er fullveldi ef fólki líður illa?“

Þingeyrarakademían að störfum. Mynd: Kristján Ottósson

Góðir alþingismenn

Þingeyrarakademían biður ykkur að íhuga vandlega eftirfarandi orð forseta Íslands við þingsetninguna:

„Hvað er dýrmætara en heilsa og hamingja? Til hvers er fullveldi ef fólki líður illa? Hvað skiptir máli þegar allt kemur til alls?“

Þessi orð forsetans ættu að vera ykkur leiðarljós. Eiturlyfin, kvíði, vanlíðan og einelti eru málefni dagsins. Við biðjum ykkur að röfla minna, kæru vinir. Þá hlustið þið betur hvert á annað. Gefið símanum frí í þingsalnum. Þar eru sömu lögmál og í skólastofunni. Forgangsraðið fjárveitingum. Þeir sem nóg hafa þurfa ekki meira. Útrýmið fátækt með einu pennastriki. Og munið eftir þeim sem eru utangarðs! Dustið svo vitleysuna í burtu eins og Stefán Karl leikari ráðlagði okkur. Við tökum sterklega undir með þingkonunni Halldóru Mogensen:

„Framtíðin getur ekki snúist um auðsöfnun og síaukna neyslu. Hún þarf að snúast um tilgang og réttláta og sjálfbæra velmegun. Læra meira, vinna meira, kaupa meira, flýta sér meira, meira — deyja. Er það furða að einstaklingar sem alast upp í slíku kerfi upplifi tilgangsleysi?“

Takið svo lagið einstaka sinnum til að styrkja móralinn.

Hvað er Þingeyrarakademían?
Þingeyrarakademían er stór hópur manna sem stundar morgunsund og heita pottinn á Þingeyri. Þar eru ýmiskonar innanlands- og heimsvandamál rædd og jafnvel leyst. Þingeyrarakademían kemur til dyranna eins og hún er klædd.

DEILA