Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fundaði 17. september og tók meðal annars fyrir málefni viðbyggingar við íþróttahúsið á Torfnesi. Fundinn sátu Daníel Jakobsson formaður, Marzellíus Sveinbjörnsson varaformaður, Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari og Nanný Arna Guðmundsdóttir sem áheyrnarfulltrúi. Arna Lára Jónsdóttir boðaði forföll sem og varamaður hennar.
Minnisblað Brynjars Þórs Jónssonar, sviðstjóra umhverfis- og eignasviðs var lagt fram og sat Brynjar fundinn undir þeim lið. Í minnisblaðinu kemur fram að „í fjárfestingaráætlun Ísafjarðarbæjar árið 2018 voru lagðar 200 milljónir í viðbyggingu við íþróttahúsið. 25. júní síðastliðinn var áætlunin uppfærð og 130 milljónir færðar af viðbyggingunni og yfir á Sindragötu 4a en eftir standa 70 milljónir. Fyrirhuguð viðbygging á að hýsa framtíðar líkamsræktarstöðu í Skutulsfirði. Í byrjun árs 2018 hófst vinna við hönnun á viðbyggingu við íþróttahúsið Torfnesi og var aðalhönnuður hússins, Vilhjálmur Hjálmarsson arkitekt, fenginn til verksins ásamt Tækniþjónustu Vestfjarða og Lagnatækni. Fyrir liggja frumhugmyndir aðalhönnuðar að viðbyggingu og er næsta skref að fullgera aðalhönnun og ráða ráðgjafa til fullnaðarhönnunnar. Bókfærður kostnaður við verkið árið 2018 er samtals 4.528.235 krónur.“
Brynjar Þór óskaði jafnframt eftir því að bæjarráð Ísafjarðarbæjar tæki afstöðu til verksins og gæfi fyrirmæli um framhaldið og áður en óskað væri eftir frekari vinnu.
Niðurstaða bæjarráðs var sú að leggja til við bæjarstjórn að ekki verði unnið frekar að þeim teikningum sem liggja fyrir varðandi viðbyggingu við íþróttahúsið á Torfnesi vegna líkamsræktarstöðu. Jafnframt leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að hafin verði vinna við þarfagreiningu á Torfnessvæðinu með framtíðarþarfir og heildarskipulag í huga.
Sæbjörg
bb@bb.is