Sveitarstjórn Strandabyggðar kom saman 11. september og fundaði um hin ýmsu mál. Þar sagði Salbjörg Engilbertsdóttir meðal annars frá stöðu mála varðandi fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2019 og næstu þrjú ár á eftir. Kom fram að sveitarstjóri, skrifstofustjóri og forstöðumenn rýna í áætlanir forstöðumanna sem síðan eru lagðar fyrir sveitarstjórn. Fjárhagsáætlun næstu fjögurra ára þarf að vera tilbúin í nóvember en Salbjörg útskýrði útlit áætlana og óskaði eftir athugasemdum sveitarstjórnarmanna. Þá var sveitarstjóra falið að kanna hvort Borgarverk geti komið til Hólmavíkur vegna viðgerða á götum.
Sveitastjórnin samþykkti að taka kauptilboði sem lá fyrir vegna eignar sveitarfélagsins að Austurtúni 8 á Hólmavík og sveitarstjóra var falið að ganga frá samningi.
Styrkumsóknir voru einnig á dagskránni en styrkir í smáverkefni hafa hingað til verið settir í pott sem úthlutað var í einni til tveimur úthlutunum. Fyrir láu tvær umsóknir á fundinum og sveitarstjórn ákvað að veita sýningunni „Skessur éta karla“ styrk að upphæð kr. 70.000.- og ókeypis uppsetningu í Hnyðju að auki og sýningunni „Rannsókn og uppsetning sögusýningar um Leikfélag Hólmavíkur“ styrk að upphæð kr. 100.000.-
Sveitarstjórn þakkar fyrir umsóknirnar og hvetur um leið alla íbúa Strandabyggðar til að sækja um styrk í þágu góðra hugmynda.
Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 29. ágúst var lögð fram en þar var meðal annars rætt um breytingar á skipulagi við Fiskislóð 1. Einnig kom fram að misræmis gætir í nöfnum einstakra gatna á Hólmavík en ekki var rætt hvernig leysa á það vandamál.
Sæbjörg
bb@bb.is