Hörpudisksrækt í Ísafjarðardjúpi

David Argue. Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Mánudaginn 17. september, kl. 16:00, mun David Argue verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerðin ber titilinn An Assessment of the Biological and Socio-Economic Feasibility for Successful Culturing of the Iceland Scallop (Chlamys islandica) in the Westfjords of Iceland. Vörnin fer fram í Háskólasetri Vestfjarða og er opin almenningi.

Í ritgerðinni kannar David Argue möguleika á hörpudisksrækt í Ísafjarðardjúpi og skoðar sérstaklega hvaða þættir þurfa að vera til staðar til að gera slíka ræktun hagkvæma bæði efnahagslega og félagslega. Í verkefninu er því unnin ákveðin grunnvinna að skapalóni sem hægt væri að nýta ef aðstæður leyfa. Í víðara samhengi er ritgerðinni ætlað að auka skilning og þekkingu á því hvað þarf til að gera skelfiskrækt á borð við þessa hagkvæma á Íslandi.

Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast í útdrætti á ensku.

Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Peter Krost, sérfræðingur í sjávarlíffræði við Coastal Research and Management í Kiel í Þýskalandi og kennari í fisk- og sjávareldi við Háskólasetur Vestfjarða. Prófdómari er dr. Guðrún G. Þórarinsdóttir, sérfræðingur við Hafrannsóknastofnun Íslands.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA