Bílastarfssemi Stekkjargötu Hnífsdal

Hnífsdalur

Í nokkur ár hefur Þorbjörn Steingrímsson verið með mikla bílastarfssemi með ónýta bíla og járnadót við Stekkjargötu í Hnífsdal. Þar á hann húsnæði en litla lóð og fer með starfsemi sína langt út fyrir hana. Nú hafa enn bæst við bílar, því íbúi frá Bolungarvík hefur komið með fullt af ónýtum bílum og plantað þeim þarna líka við Stekkjargötuna, mér skilst að hann hafi verið rekinn með þá frá Bolungarvík því bæjarstjórinn þar vill ekki hafa þetta inn í íbúðabyggð. Þessi starfssemi skapar mikla eldhættu fyrir íbúana í Hnífsdal. Mikil eldhætta er af þessum bílum og er verið að vinna við þá og rífa í sundur. Mikill eldmatur er þarna bæði úti og innandyra, sem er allskonar olía og bensín. Ef kemur upp eldur þarna þá verður þarna stærsta brenna sem sést hefur á Vestfjörðum.

Þarna á Stekkjargötunni eru fiskverkunarhús og nokkur íbúðarhús sem eru í stórhættu ef eldur kemur upp. Tími hjá slökkviliði frá Ísafirði að komast á staðin gæti verið allt að 30 mínútur. Ég veit að stjórn íbúðarsamtakana hafa barist fyrir því við bæjaryfirvöld taka á þessu máli en ekkert gerist. Ég krefst þess að þeir starfsmenn bæjarins sem hafa átt að sinna þessum málum girði sig í brók, stoppi þessa starfsemi og ættu að geta látið Heilbrigðiseftirlitið á Vestfjörðum vakna og láta það vinna með sér í þessu máli, stutt er til þeirra, því það er með skrifstofu í Bolungarvík. Ég hvet nýjan bæjarstjóra Ísfjarðarbæjar að kynna sér málið og taka til hendinni í þessu máli og að þessari bílasafnarastarfsemi verði hætt fyrir 1.október.

Kristján Pálsson vélfræðingur Bakkaveg 33 Hnífsdal.

DEILA