Opnir fundir Samtaka atvinnulífsins á Ísafirði og Patreksfirði

Eyjólfur Árni Rafnsson, Halldór Benjamín Þorbergsson og Ásdís Kristjánsdóttir eru á myndinni. Samtök atvinnulífsins.

Á næsta ári verður samið um lífskjör Íslendinga í fjölda kjarasamninga. Eyjólfur Árni Rafnsson formaður SA, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins rýna í stöðu og horfur á vinnumarkaði og ræða svigrúm til launahækkana næstu árin á fjölda opinna funda hringinn í kringum landið næstu vikurnar.

Fundaröðin hefst á Ísafirði miðvikudaginn 12. september kl. 12 í Stjórnsýsluhúsinu á 4. hæð. Síðar sama dag verður boðið til opins fundar í Félagsheimili Patreksfjarðar kl. 16.30-18. Boðið verður upp á létta hressingu.

Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sex aðildarsamtökum sem starfa á grunni atvinnugreina. Yfir 2.000 fjölbreytt fyrirtæki eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði rúmlega 100 þúsund manns.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA