Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST) hefur ráðið Þóri Sveinsson í stöðu fjármálastjóra og Kristjönu Millu Snorradóttur í stöðu mannauðs- og rekstrarstjóra.
Þórir Sveinsson fjármálastjóri
Þórir hefur starfað sem skrifstofustjóri Vesturbyggðar frá 2010 og var þar áður fjármálastjóri Blönduósbæjar, Veðurstofu Íslands og Ísafjarðarbæjar. Þórir hefur undanfarna mánuði leyst af sem fjármálastjóri HVEST meðfram störfum fyrir Vesturbyggð. Hann er menntaður viðskiptafræðingur með cand. oceon. gráðu frá Háskóla Íslands og hefur lokið MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu. Þórir verður með starfsstöð bæði á Ísafirði og Patreksfirði.
Tveir umsækjendur voru um stöðuna.
Kristjana Milla Snorradóttir mannauðs- og rekstrarstjóri
Kristjana Milla hefur starfað sem mannauðsstjóri hjá ferðaskrifstofunni Nordic Visitor frá árinu 2016. Áður starfaði hún sem gestamóttökustjóri og sölu- og markaðsfulltrúi hjá Icelandair Hotels, og sem framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vesturferða á Ísafirði. Kristjana Milla er iðjuþjálfi að mennt og hefur auk þess lokið MPM námi í verkefnastjórnun.
Sex umsækjendur sóttu um stöðu mannauðs- og rekstrarstjóra. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Vegna vensla við Kristjönu Millu tók forstjóri HVEST ekki þátt í ráðningu mannauðs- og rekstrarstjóra. Framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri hjúkrunar, auk ráðgjafa Hagvangs, önnuðust viðtöl við umsækjendur og mat á þeim. Einhugur var meðal þeirra um að ganga til samninga við Kristjönu Millu.
Um Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
Hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfa ríflega 250 manns, en stofnunin veitir almenna heilbrigðisþjónustu á þremur sviðum; heilsugæslu-, hjúkrunar- og sjúkrasviði. Innan heilbrigðisumdæmisins eru sveitarfélögin Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
Með ráðningu fjármálastjóra og mannauðs- og rekstrarstjóra er komin að mestu ný yfirstjórn yfir stofnunina, en nýr forstjóri tók við í sumar og nýr framkvæmdastjóri lækninga tekur við 1. október.
Sæbjörg
bb@bb.is