Hafnar- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar samþykktir erindi Arnarlax hf.

Staðsetningar eldiskvía Arnarlax eru skyggðar með grænu.

Erindi frá Guðmundi V. Magnússyni fyrir hönd Arnarlax hf. var tekið fyrir í Hafnar- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar þann 5. september síðastliðinn. Í erindinu er sótt um stöðuleyfi fyrir tveimur 40 feta gámum sjávarmegin við Strandgötu 10-12 á Bíldudal sem koma uppsettir með hreinsibúnaði fyrir frárennsli frá sláturhúsi fyrirtækisins. Einnig er sótt um stöðuleyfi fyrir tvo aðra gáma neðar á sömu lóð sem ætlaðir eru sem geymsla auk leyfis fyrir 50 rúmmetra safntanks til að jafna rennslið frá slátruninni. Erindinu fylgir teikning er sýnir fyrirhugaða staðsetningu gámanna auk tanks.

Samkvæmt umsækjenda er áætlað að byggja hús á sömu lóð sem hýsa á fyrrgreindan búnað. Erindið hafði áður verið tekið fyrir á 50. fundi skipulags og umhverfisráðs þann 20. ágúst síðastliðinn sem samþykkti erindið fyrir sitt leyti og vísaði málinu áfram til Hafna- og atvinnumálaráðs. Hafna- og atvinnumálaráð samþykkir erindið en vekur athygli á að stöðuleyfi er einungis gefið út til eins árs í senn.

Á sama fundi var annað erindi frá sama aðila, Guðmundi V. Magnússyni fyrir hönd Arnarlax hf. þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu lagna frá Strandgötu 1 til Strandgötu 10-12 á Bíldudal. Um er að ræða nokkrar lagnir sem flytja eigi frárennsli sláturhúss fyrirtækisins til hreinsunar og verða lagnirnar lagðar í kant Strandgötu og þvera götu við Strandgötu 10-12.

Skipulags- og umhverfisráð mat framkvæmdina sem óverulega á 50. fundi ráðsins þann 20. ágúst síðastliðinn og samþykkti erindið fyrir sitt leyti og vísaði áfram til Hafna- og atvinnumálaráðs. Hafna- og atvinnumálaráð samþykkir erindið með fyrirvara um að fá skýrari upplýsingar um markmið og ávinning verkefnisins. Forstöðumanni tæknideildar var falið að kanna með samlegðaráhrif við Vesturbyggð varðandi færslu á fráveitu.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA