Það bættist í Vestfirskan skipaflota þegar útgerðarmaðurinn Arnar Kristjánsson sigldi nýju skipi sínu, Ísborg ll ÍS 260 til heimahafnar í dag. Með tilkomu nýja skipsins verður eldra skipinu Ísborgu, lagt og það selt í niðurrif. Það skip sem áður hét Hafþór og síðan Haffari og var þá gerður út frá Súðavík hefur verið mikil happafley og verið ein af burðarásum í hráefnisöflun fyrir rækjuvinnslur í Ísafjarðarbæ.
Nýja skipið sem áður var gert út frá Sauðárkrók og hét þá Klakkur, var gert út á fiskitroll til hráefnisöflunar fyrir Fisk Seafood. Skipið var þá undir stjórn Snorra Snorrasonar, mikils fiskmanns. Klakkur er 500 rúmlestir, smíðaður í Gdynia í Póllandi 1977 og var Klakkur hf í Vestmannaeyjum upphaflegur eigandi.
Ísborg II kemur úr slipp á Akureyri þar sem það var botnmálað og farið yfir skrúfu og öxuldregið. Arnar gerir ráð fyrir að veturinn verði notaður til að útbúa skipið til rækjuveiða og það geti hafið veiðar snemma vors.
Gunnar