Gestur fyrsta Vísindaports þessa hausts er Blake Smith, sagnfræðingur, sem mun í erindi sínu fjalla um Jón Ólafsson Indíafara. Jón Indíafari (1593-1679) frá Svarthamri í Álftafirði var víðförull maður á sínum tíma og ferðaðist hann meðal annars til Englands, Danmerkur og Grænlands. Frægastur er hann þó fyrir dvöl sinni í dönsku nýlendunni Tranquebar á Indlandi. Í reisubók sinni segir Jón frá fjölda ættbálka og tungumála sem urðu á vegi hans. Segist hann sjálfur hafa fullkomið vald á enskri tungu, en í „indversku“ sé hann fremur slakur. Spænska, portúgalska og rússneska eru einnig nefndar til sögunnar. Það er áhugavert að velta fyrir sér hvaða tungumál Jón notaði á ferðalögum sínum og hvernig hann lærði þau. Erindinu er ætlað að setja Jón og ferðalög hans í málvísindalegt samhengi.
Blake Smith er sagnfræðingur og er sérsvið hans tengsl Evrópu við Indland. Hann er með doktorspróf frá Northwestern University í Illinois og École des Hautes Études en Sciences Sociales í París. Í haust mun Blake hefja kennslu við Chicago háskóla.
Vísindaportið fer að venju fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku.
Sæbjörg
bb@bb.is