Sendiherra ESB á Íslandi, Michael Mann, ásamt upplýsingafulltrúa stofnunarinnar, Klemens Þrastarssyni heimsóttu Vestfirði í síðustu viku. Mánudaginn 27. ágúst síðastliðinn heimsóttu þeir Ísafjörð og Súðavík. Hófu þeir heimsókn sína í Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins. Því næst litu þeir við hjá Daníel Jakobssyni, formanni bæjarráðs og eftir það lá leiðin til Peter Weiss í Háskóla-setri Vestfjarða þar sem fríður flokkur tók á móti þeim félögum. Að því loknu var snæddur hádegisverður með konsúlum Svíþjóðar og Danmerkur, þeim Birnu Lárusdóttur og Jónu S. Bjarnadóttur. Heimsóknum dagsins var hvergi nærri lokið og hittu þeir Sigríði Ó. Kristjánsdóttur hjá Vestfjarðarstofu áður en þeir skutust yfir til Súðavíkur að hitta rokkstjórann Mugison. Frá-bærum degi að þeirra sögn lauk loks með ótrúlegum fiskréttum í Tjöruhúsinu.
Þriðjudaginn 28. ágúst ferðuðust þeir um sunnanverða Vestfirði en heimsóttu Elfar Loga Hannesson leikara áður í Haukadal og fengu góða kynningu og upprifjun á arfleifð Ís-lendingasagnanna. Eftir það var ferðinni svo heitið í poppmenninguna til hennar Nönnu Sjafnar Pétursdóttur í Melódíum minninganna á Bíldudal, en húsráðandinn, hann Jón Kr. var vant viðlátinn fyrir sunnan fjall. Eftir að hafa dáðst að safninu hittu þeir Víking Gunnarsson í Arnarlaxi og að því loknu kíktu þeir í hið ótrúlega safn Samúels Jónssonar í Selárdal og nutu þar leiðsagnar Gerhards König. Um kvöldið snæddu þeir Michael og Klemens með Gerði Björk Sveinsdóttur, starfandi bæjarstjóra Vesturbyggðar og Þórkötlu Soffíu Ólafsdóttur, formanns bæjarráðs Vesturbyggðar á Fosshóteli á Patreksfirði. Löngum og ljúfum degi lauk svo með heimsókn til þeirra Arons Inga Guðmundssonar og Julie Gasiglia í Húsið-Creative Space á Patreksfirði.
Þriðja daginn, miðvikudaginn 29 ágúst héldu þeir aftur norður fyrir og heimsóttu Wouter von Hoymissen og Janne Kristensen í Simbahöllinni og þau Arnar Sigurðsson og Arnhildi Lilý Karlsdóttir í Blábankanum, hvort tveggja á Þingeyri. Því næst hittu þeir Helenu Jónsdóttir og Önnu Sigríði Sigurðardóttur í Lýðháskólanum á Flateyri. Að því loknu lá leiðin í Orkubú Vestfjarða til hans Elíasar Jónatanssonar. Deginum lauk svo með tveimur heimsóknum, annars vegar til Finnboga Sveinbjörnssonar hjá Verkvest og svo til franska konsúlsins á Ísafirði, hennar Elísabetar Gunnars-dóttur.
„Mikill sköpunarkraftur í Vestfirðingum“
Blaðamaður BB hitti Michael á Patreksfirði og tók hann tali. Micheal er búinn að starfa hér á Íslandi í næstum í eitt ár og líkar það afar vel. Hann var áður í 23 ár í Brussel sem hann lýsir sem aðlaðandi borg. Hann segir að það sé mjög áhugavert að vinna með Íslendingum og er spenntur fyrir komandi vetri. Hann segir afar mikilvægt að heimsækja landsbyggðina til að sjá og heyra hvað fólk hefur fram að færa þar.
„Það er hættulegt að hugsa að Reykavík sé allt Ísland. Við heimsóttum austurland nýlega og núna erum við hérna á Vestfjörðum. Við höfum hitt pólitíkusa á svæðinu, nokkra bæjarstjóra og svo skoðað mjög áhugaverð menningartengd verkefni. Við heimsóttum líka fiskeldisfyrirtæki og sáum starfsemina þar. Við höfum heyrt að fólki finnist ekki vera hlustað á þeirra hlið, að fólk í Reykjavík taki ekki mark á þeim. Þannig að það er mikilvægt að sjá með eigin augum hvernig hlutirnir eru hér og að hitta fólk. Hér er afar vingjarnlegt fólk og það er auðséð að þótt fólk komi úr ólíkum áttum pólitískt séð þá getur það unnið saman og unnið að sameiginlegum markmiðum.“ segir Michael.
Michael segir að það verði áhugavert að sjá hvort stefna ríkisstjórnarinnar nái fram, með að styrkja innviði landsins og þar kemur landsbyggðin sterk inn. “Það er alveg magnað að sjá hvað er mikið um að vera hér, hvað þorpin eru lífleg, frumlegar hugmyndir og mikill sköpunarkraftur í gangi. Fólk er óhrætt við að láta drauma sína rætast og að framkvæma hluti, það er augljóst. En það er mikilvægt að hafa í huga að setja ekki öll eggin í sömu körfuna heldur gera nokkra hluti á sama tíma, ekki einblína bara á eitthvað eitt. Ísland er gott og stórt vörumerki og mjög vinsæll áfangastaður. Hvort sem það var með ráði gert eða ekki, þá tókst ykkur að gera Ísland að sexý merki. Sumir hafa sagt að framtíðin sé svört hér á Vestfjörðum en maður sér það ekki. Einmitt þvert á móti finnst mér þetta vera að snúast við og vera upp á við, þannig er stemningin.“
Michael bætir við að honum finnist vegirnir ekki of slæmir á svæðinu, þeir gefi upplifuninni sem það er að ferðast um firðina bara aukið gildi. Hann segir að lokum að gaman verði að fylgjast með Vestfjörðum í framtíðinni og þá sér í lagi hvernig byggðaþróun og atvinnumál þróist. Að hans mati þá geti fólk unnið svo víða með hjálp tækninnar í dag þannig að það hvar fólk búi skipti minna máli en áður hvað atvinnu varðar. Lofaði hann Vestfirði mikið og sagðist að öruggt væri að hann kæmi aftur hingað við fyrsta tækifæri.
Aron Ingi
aron@bb.is