Egill Heiðar Gíslason færði Raggagarði á dögunum ríflegan styrk upp á 250 þúsund krónur. Þetta gerði hann á 60 ára afmæli sínu, sem hann hélt upp á á Grund í Súðavík. Egill Heiðar er er mikill Súðvíkingur, fæddur á Grund árið 1958 og hefur ávallt, frá því hann fluttist burt, ræktað tengsl sín og vensl við fæðingarstaðinn.
En hver er sagan á bakvið gjöfina? „Á fimmtugsafmælinu mínu, sem haldið var í Súðavík, færði ég garðinum gjöf og ákvað jafnframt að láta þann draum rætast að gefa út lag um Súðavík við texta eftir Auði Hjaltadóttir frá Dvergasteini. Þessu kom ég í verk og hélt útgáfutónleika hér í Súðavík á 30 ára brúðkaupsafmæli okkar hjóna, 27. júlí 2015.“
Diskur Egils Heiðars ber nafnið Ó Ó Ó Súðavík og á honum eru fimm lög. „Á úgàfutónleikunum gaf ég fyrirheit um að ég mundi styrkja Raggagarð um ágóðan af útgáfunni og fannst því vel við hæfi að gera það í tengslum við 60 ára afmæli mitt, en à afmælidegi garðsins þann 08.08 2018, á æskuheimili mínu Grund hér í Súðavík.“
Styrkurinn er rausnarlegur og Egill Heiðar segist vona að hann eigi eftir að gagnast vel í uppbyggingar- og þróunarstarfi Raggagarðs.
„Ég stend í mikilli þakkarskuld við Súðavík, sem ól mig upp og gerði mig að þeim manni sem ég er í dag. Ég er stoltur af mínum uppruna og þorpinu mínu og hef alla tíð lagt mig fram um að styðja það með ráð og dáð. Hér slær hjartað mitt og ef ég get lagt eitthvað af mörkum þá geri ég það með gleði í hjarta.“ Segir Súðvíkingurinn Egill Heiðar Gíslason að lokum.
Margrét Lilja
milla@bb.is